Veldu ár

2023 (5)
2022 (16)
2021 (21)
2020 (21)
2019 (27)
2018 (19)
2017 (21)
2016 (18)
2015 (20)
2014 (19)
2013 (17)
2012 (17)
2011 (22)
2010 (26)
2009 (25)
2008 (24)
2007 (26)
2006 (14)
2005 (16)
2004 (24)
2003 (32)
2002 (18)
2001 (20)
2000 (19)
1999 (13)
1998 (11)
1997 (14)
1996 (17)
1995 (17)
1994 (17)
1993 (22)
1992 (27)
1991 (24)
1990 (24)
1989 (25)
1988 (38)
1987 (38)
1986 (26)
1985 (28)
1984 (34)
1983 (28)
1982 (30)
1981 (26)
1980 (27)
1979 (21)
1978 (23)
1977 (21)
1976 (24)
1975 (19)
1974 (11)
1973 (11)
07.09.2019
29.09.2019

Haustlaukar − Ný myndlist í almannarými

Í september efnir Listasafn Reykjavíkur til samsýningar utan veggja safnhúsanna. Fimm myndlistarmenn setja fram ný verk sem birtast á fjölbreyttan og nýstárlegan hátt víða um Reykjavík og í því sameiginlega rými sem tækni samtímans býður upp á. Um er að ræða gjörninga, inngrip og uppákomur af ýmsu tagi. Í stað efnislegra skúlptúra, minnisvarða eða annarra varanlegra umhverfisverka beinir sýningin Haustlaukar sjónum að verkum sem eru unnin meira og minna í óáþreifanlega miðla; þau skjóta rótum víða og spretta upp við óvæntar aðstæður. Ókeypis aðgangur.

Listamenn
Ásgerður Birna Björnsdóttir
Berglind Jóna Hlynsdóttir
Curver Thoroddsen
Snorri Ásmundsson
Þóranna Björnsdóttir

Listamennirnir fimm spyrja spurninga sem snúa að almannarými. Viðfangsefni þeirra eru fjölbreytt og tengjast málefnum líðandi stundar, s.s. sítengingu, núvitund, umhverfismálum, valdi, eignarhaldi eða mörkum einka- og almannarýmis. Snorri Ásmundsson býður til hugleiðslustundar í Egilshöll þar sem dýrlingurinn, meistari Hilarion, líkamnast í listamanninum. Stundin markar upphaf vegferðar sem hann mun framfylgja á samfélagsmiðlum og á vefnum. Sana Ba Lana er í anda fyrri verka Snorra sem teygja sig gjarnan út fyrir hefðbundið rými listarinnar og inn í hið almenna, pólitíska, trúarlega og samfélagslega. Verk hans eru í formi opinberra viðburða - inngrip og gjörningar - þar sem listamaðurinn umturnar viðurkenndum gildum samfélagsins og gengur ótrauður inn í ýmis hlutverk valdastigans. Skemmst er að minnast þess er hann þjónaði fyrir altari í Hríseyjarkirkju, bauð sig fram til forseta og stofnaði stjórnmálahreyfinguna Vinstri hægri snú.

Curver Thoroddsen er þekktur fyrir það sem hann sjálfur nefnir „raunveruleikagjörninga.” Þar setur hann daglegt líf og gjörðir í listrænt samhengi. Ýmist færir hann eigið einkalíf inn á vettvang listastofnana, eða beinir kastljósi myndlistar að sjálfum sér í amstri hversdagsins. Sem dæmi hefur hann tekið íbúðina sína í gegn, haldið upp á jólin í beinni á netinu, farið í megrun og borðað fjölda hamborgara - allt í nafni myndlistar. Verk hans vekja upp spurningar um hlutverk listamanna í samfélaginu sem og eðli listsköpunar og -upplifunar en þau endurspegla jafnframt málefni líðandi stundar, dægurmenningu og tíðaranda. Fyrir sýningun Haustlauka hefur Curver skapað nýtt verk, eins konar ofur-raunveruleikagjörning þar sem hann beinir sjónum sínum að hversdagshetjum og umhverfinu.

Á þaki Tollhússins við Tryggvagötu er verk Berglindar Jónu Hlynsdóttur að finna. Það tekur mið af sögu Tollhússins og manngerðu svæðinu í kring sem tekið hefur stöðugum breytingum síðan bygging hússins hófst árið 1967. Ýmsar tillögur hafa verið lagðar fram um svæðið í gegnum tíðina, en í takt við breyttar áherslur í skipulagsmálum hefur þeim ýmist ekki verið hrint í framkvæmd eða kláraðar að fullu. Í verkinu veltir Berglind fyrir sér þeirri framtíð sem ekki varð, hvaða væntingar við berum til svæðisins og þeim framtíðarhorfum sem hafa byrjað að birtast umhverfis húsið í dag.

Verki Ásgerðar Birnu Björnsdóttir er best lýst sem inngripi í hversdagslíf fólks. Það er hljóðverk sem verður flutt á handahófskenndum tímum á stöðum þar sem uppspretta hljóðsins er illgreinanleg. Að baki verkinu eru vangaveltur um sítengingu og þau ósýnilegu en áþreifanlegu kerfi sem verða til við aukna tæknivæðingu. Farsíminn leikur sífellt stærra hlutverk í daglegu lífi okkar flestra og hefur allt að því ofurvald yfir okkur með hringingum og hljóðmerkjum. Þegar síminn hringir setjum við gjarnan allt til hliðar til að svara eða þagga niður í honum hljóðið. Jafnvel þó það sé bara í andartak, neyðumst við til að hverfa frá hugsunum okkar og má segja að við séum að verða skilyrt eða háð þessari reglulegu truflun.

Þóranna Björnsdóttir sækir innblástur í þjóð- og goðsögur sem fjalla um örlög á krossgötum. Hún safnar einkum frásögnum þar sem heimur manna og hulinsheimur mætast. Verkið byggist á gjörningi sem á sér stað á gatnamótum í miðborginni og þar býðst vegfarendum að staldra við og íhuga aðstæður þar sem við stöndum frammi fyrir vali eða þáttaskilum. Hvað felst í því að velja og hverju höfnum við þegar við tökum ákvarðanir?

Sum verka sýningarinnar eru aðeins flutt einu sinni á meðan önnur eiga sér lengri eða tíðari tilvist. Dagskrá sýningarinnar má kynna sér hér í sýningarskránni, á samfélagsmiðlum safnsins eða dagskrársíðu þess. Árið 2019 er ár listar í almenningsrými hjá Listasafni Reykjavíkur og er sýningin hluti af því samhengi ásamt fleiri sýningum, viðburðum og miðlunarstarfi.

DAGSKRÁ

Snorri Ásmundsson
Sana Ba Lana

Egilshöll, Fossaleynir 1, 112 Reykjavík
lau. 07.09. 16:00

Berglind Jóna Hlynsdóttir
Biðin er löng - Tollhúsið. 1. bindi

Tollhús Reykjavíkur, Tryggvagata 19, 101 Reykjavík
opnun sun. 15.09. 15:00
opið daglega: 15.-29.09
mán. - fös: 10:00-15:30
fim: 10:00-20:00
lau. - sun:13:00-17:00
Lokað fös. 20. sept.

Curver Thoroddsen
Reykjavík
07.-29.09.

Ásgerður Birna Björnsdóttir
Hvers vegna syngja fuglar?

Breiðholtslaug, Austurberg 3, 111 Reykjavík
fös. 13.09., 20.09. 14:00-22:00
Vesturbæjarlaug, Hofsvallagata 107, 107 Reykjavík
laug. 14.09., 21.09. 9:00-22:00

Þóranna Björnsdóttir
Vegvísir á krossgötum

Á horni Pósthússtrætis og Austurstrætis 101 Reykjavík
fös. 13.09. 17:00
sun. 22.09. 14:00
fim. 26.09. 20:30
Lokað fim. 19.09

Samtal við listamenn sýningarinnar
Listasafn Reykjavíkur - Hafnarhús, Tryggvagata 17, 101 Reykjavík
fim. 12.09. 20:00

Sýningarstjórn
Markús Þór Andrésson

Framkvæmdastjórn
Sunna Ástþórsdóttir

Sýningin er styrkt af Myndlistarsjóði.
Ókeypis aðgangur.

Smelltu á myndirnar til að skoða fleiri myndir á Instagram og póstaðu þínum eigin með því að merkja þær með #myllumerki sýningarinnar.
Mundu að fylgja Listasafni Reykjavíkur á @reykjavikartmuseum.

Viðburðir tengdir sýningu

Ásgerður Birna Björnsdóttir: Hvers vegna syngja fuglar?
Breiðholtslaug og Vesturbæjarlaug
20. september 2019 - 14:00 til 22:00
Ásgerður Birna Björnsdóttir: Hvers vegna syngja fuglar?
Breiðholtslaug og Vesturbæjarlaug
21. september 2019 - 9:00 til 22:00
Curver Thoroddsen
Reykjavík
21. september 2019 - 10:00 til 17:00
Berglind Jóna Hlynsdóttir: Biðin er löng - Tollhúsið 1. bindi. Ljósmynd: Friðþjófur Helgason / Ljósmyndasafn Reykjavíkur.
Tollhús Reykjavíkur
21. september 2019 - 13:00 til 17:00
Berglind Jóna Hlynsdóttir: Biðin er löng - Tollhúsið 1. bindi. Ljósmynd: Friðþjófur Helgason / Ljósmyndasafn Reykjavíkur.
Tollhús Reykjavíkur
22. september 2019 - 13:00 til 17:00
Þóranna Björnsdóttir: Vegvísir á krossgötum
Á horni Pósthússtrætis og Austurstrætis
22. september 2019 - 14:00 til 15:00