13. september 2019 - 17:00 til 18:00
22. september 2019 - 14:00 til 15:00
26. september 2019 - 20:30 til 21:30

Þóranna Björnsdóttir: Vegvísir á krossgötum

Þóranna Björnsdóttir: Vegvísir á krossgötum
Staður viðburðar: 
Á horni Pósthússtrætis og Austurstrætis

Þóranna Björnsdóttir sækir innblástur í þjóð- og goðsögur sem fjalla um örlög á krossgötum. Hún safnar einkum frásögnum þar sem heimur manna og hulinsheimur mætast. Verkið byggist á gjörningi sem á sér stað á gatnamótum í miðborginni og þar býðst vegfarendum að staldra við og íhuga aðstæður þar sem við stöndum frammi fyrir vali eða þáttaskilum. Hvað felst í því að velja og hverju höfnum við þegar við tökum ákvarðanir? Vegvísir á krossgötum er nýr staðbundinn gjörningur og innsetning. Viðfangsefni Þórönnu eru mörg og fjölbreytt en snúast gjarnan um heimssýn einstaklingsins, hvernig hún mótast og þróast. Verk hennar eru sambland af mynd og hljóði og taka form í gegnum lifandi gjörninga, innsetningar og skúlptúra. 

Þóranna Björnsdóttir (f. 1976) er raftónlistarmaður, myndlistarmaður og listkennari. Hún hefur stundað tónlistarnám frá unga aldri, lauk BA gráðu í hljóð- og myndlist frá Konunglega Listaháskólanum í Haag árið 2006 og MA gráðu í kennslufræði lista við Listaháskóla Íslands árið 2014. 

Verkið Vegvísir á krossgötum er hluti af sýningu Listasafns Reykjavíkur, Haustlaukar - Ný myndlist í almannarými, sem stendur yfir utan safnhúsanna í september. Fimm myndlistarmenn sýna þar ný verk sem birtast á fjölbreyttan og nýstárlegan hátt víða um Reykjavík og í því sameiginlega rými sem tækni samtímans býður upp á. Listamennirnir eru: Ásgerður Birna Björnsdóttir, Berglind Jóna Hlynsdóttir, Curver Thoroddsen, Snorri Ásmundsson og Þóranna Björnsdóttir. Fylgist með dagskrá sýningarinnar á dagskrársíðu safnsins og á samfélagsmiðlum. Árið 2019 er ár listar í almenningsrými hjá Listasafni Reykjavíkur og er sýningin hluti af því samhengi ásamt fleiri sýningum, viðburðum og miðlunarstarfi. 

Sýningin er styrkt af Myndlistarsjóði.

Verð viðburðar kr: 
0