Listasafn Reykjavíkur er kraftmikill og framsækinn vettvangur þar sem gestir geta upplifað breitt svið myndlistar. Við sýnum verk eftir leiðandi íslenska og erlenda myndlistarmenn auk upprennandi listafólks.
Listasafn Reykjavíkur er leiðandi safn á Íslandi staðsett á þremur stöðum í miðborg Reykjavíkur — Hafnarhúsi, Kjarvalsstöðum og Ásmundarsafni og hefur einnig umsjón með útlistaverkum í borginni.
Árlega eru fimmtán til tuttugu sýningar af mismunandi stærðum opnaðar í þremur safnhúsum Listasafns Reykjavíkur.
Í safneign Listasafns Reykjavíkur eru meira en 17.000 verk í mismunandi miðlum, aðallega eftir íslenska listamenn frá 20. og 21. öld.
Meðal þeirra eru einstök söfn listaverka og heimildaefnis eftir þrjá máttarstólpa íslenskrar myndlistar; Erró, Jóhannes S. Kjarval og Ásmund Sveinsson. Sýningar og rannsóknir á verkum þeirra eru hluti af fastri dagskrá safnsins.
Við erum staðráðin í að ná til breiðs hóps fólks með fjölbreyttri dagskrá og öflugri miðlun innan og utan safnsins. Á hverju ári bjóðum við upp á um 200 opinbera viðburði, þar á meðal samtöl við listamenn og sýningarstjóra auk sérfræðinga safnsins. Safnið er mikilvægur vettvangur fyrir orðræðu um list og hlutverk hennar í samfélaginu fyrir listamenn fræðimenn og almenning. Árlega koma rúmlega 10.000 nemendur af öllum skólastigum í Listasafn Reykjavíkur. Safnfræðslan okkar felur í sér vinnustofur, umræður og leiðsagnir á ýmsum tungumálum auk sérhæfðra heimsókna fyrir fatlað fólk og einstaklinga sem standa frammi fyrir félagslegum áskorunum.
Eitt af markmiðum okkar er að vera virkur samstarfsaðili í menningarviðburðum borgarinnar en Listasafn Reykjavíkur á í samstarfi við fjölmargar hátíðir, þar á meðal tónlistarhátíðina Iceland Airwaves, Safnanótt í Reykjavík, Listahátíð í Reykjavík, HönnunarMars og Menningarnótt í Reykjavík.