13. september 2019 - 14:00 til 22:00
14. september 2019 - 9:00 til 22:00
20. september 2019 - 14:00 til 22:00
21. september 2019 - 9:00 til 22:00

Ásgerður Birna Björnsdóttir: Hvers vegna syngja fuglar?

Ásgerður Birna Björnsdóttir: Hvers vegna syngja fuglar?
Staður viðburðar: 
Breiðholtslaug og Vesturbæjarlaug

Breiðholtslaug, Austurberg 3, 111 Reykjavík
fös. 13.09., 20.09. 14:00-22.00

Vesturbæjarlaug, Hofsvallagata 107, 107 Reykjavík
laug. 14.09., 21.09. 9:00-22:00

Verki Ásgerðar Birnu Björnsdóttur er best lýst sem inngripi í hversdagslíf fólks. Það er samið sérstaklega fyrir síma sem einskonar hringitónakór. Hljóðverkið verður flutt á handahófskenndum tímum á stöðum þar sem uppspretta hljóðsins er illgreinanleg. Að baki eru vangaveltur um sítengingu og þau ósýnilegu en áþreifanlegu kerfi sem verða til við aukna tæknivæðingu. Farsíminn virðist nánast lifa sjálfstæðu lífi. Hann leikur sífellt stærra hlutverk í daglegu lífi okkar flestra og hefur allt að því ofurvald yfir okkur með hringingum og hljóðmerkjum. Þegar síminn hringir setjum við gjarnan allt til hliðar til að svara eða þagga niður í honum hljóðið. Jafnvel þó það sé bara í andartak, neyðumst við til að hverfa frá hugsunum okkar og má segja að við séum að verða skilyrt eða háð þessari reglulegu truflun.

Ásgerður Birna Björnsdóttir (f. 1990) býr og starfar í Amsterdam. Hún stundaði nám í myndlist við Gerrit Rietvelt Academie þaðan sem hún útskrifaðist árið 2016. Hún hefur sýnt á víða á Íslandi og í Hollandi og er ein af stofnendum listamannarekna sýningarrýmisins at7 í Amsterdam og Laumulistasamsteypunnar hér á Íslandi.

Verkið er hluti af sýningu Listasafns Reykjavíkur, Haustlaukar - Ný myndlist í almannarými, sem stendur yfir utan safnhúsanna í september. Fimm myndlistarmenn sýna þar ný verk sem birtast á fjölbreyttan og nýstárlegan hátt víða um Reykjavík og í því sameiginlega rými sem tækni samtímans býður upp á. Listamennirnir eru: Ásgerður Birna Björnsdóttir, Berglind Jóna Hlynsdóttir, Curver Thoroddsen, Snorri Ásmundsson og Þóranna Björnsdóttir. Fylgist með dagskrá sýningarinnar á dagskrársíðu safnsins og á samfélagsmiðlum. Árið 2019 er ár listar í almenningsrými hjá Listasafni Reykjavíkur og er sýningin hluti af því samhengi ásamt fleiri sýningum, viðburðum og miðlunarstarfi.

Sýningin er styrkt af Myndlistarsjóði.

Verð viðburðar kr: 
0