7. september 2019 - 16:00

Snorri Ásmundsson: Sana Ba Lana

Snorri Ásmundsson: Sana Ba Lana
Staður viðburðar: 
Egilshöll

Myndlistarmaðurinn Snorri Ásmundsson býður til hugleiðslustundar í Egilshöll sem jafnframt er stofnfundur nýrrar jógahreyfingar, Sana Ba Lana. Þar mun meistari Hilarion, heilari og prestur í musteri sannleikans, taka á móti gestum og leiða inn í víddir hugans. Hilarion er vel kunnugur leiðinni að sannleikanum. Hann var dýrlingur í Atlantis en tókst að flýja til Grikklands áður en eyjan sökk í hafið. Þar stofnaði hann sannleiksmusteri sem síðar meir þróaðist í Véfréttina í Delfí. Hilarion hefur ítrekað endurfæðst í gegn um söguna og birst tortryggnum og trúlausum.

Á viðburðinum í Egilshöll líkamnast dýrðlingurinn í listamanninum. Stundin markar upphaf vegferðar sem hann mun framfylgja á samfélagsmiðlum og á vefnum. 

Sana Ba Lana er í anda fyrri verka Snorra Ásmundssonar (f. 1966) sem teygja sig gjarnan út fyrir hefðbundið rými listarinnar og inn í hið almenna, pólitíska, trúarlega og samfélagslega. Verk hans eru í formi opinberra viðburða - inngrip og gjörningar - þar sem listamaðurinn umturnar viðurkenndum gildum samfélagsins og gengur ótrauður inn í hin ýmsu hlutverk valdastigans. Skemmst er að minnast þegar hann þjónaði fyrir altari í Hríseyjarkirkju, bauð sig fram til forseta og stofnaði stjórnmálahreyfinguna Vinstri hægri snú þar áður. 

Viðburðurinn er hluti af sýningu Listasafns Reykjavíkur, Haustlaukar - Ný myndlist í almannarými, sem stendur yfir utan safnhúsanna í september. Fimm myndlistarmenn sýna þar ný verk sem birtast á fjölbreyttan og nýstárlegan hátt víða um Reykjavík og í því sameiginlega rými sem tækni samtímans býður upp á. Listamennirnir eru: Ásgerður Birna Björnsdóttir, Berglind Jóna Hlynsdóttir, Curver Thoroddsen, Snorri Ásmundsson og Þóranna Björnsdóttir. Fylgist með dagskrá sýningarinnar á dagskrársíðu safnsins og á samfélagsmiðlum. Árið 2019 er ár listar í almenningsrými hjá Listasafni Reykjavíkur og er sýningin hluti af því samhengi ásamt fleiri sýningum, viðburðum og miðlunarstarfi.

Sýningin er styrkt af Myndlistarsjóði.

Verð viðburðar kr: 
0