Jóhannes Sveinsson Kjarval (1885–1972) skipar sérstakan sess í íslenskri menningarsögu sem einn ástsælasti listamaður þjóðarinnar.
Hann var goðsögn í lifanda lífi og í augum margra persónugervingur hins rómantíska listamannabóhems. Rætur hans lágu í hinu íslenska bændasamfélagi, en líf hans og listsköpun tengist menningarlegri viðreisn þjóðarinnar á fyrri hluta 20.aldar órjúfanlegum böndum. Hann er þekktastur fyrir túlkun sína á náttúrunni og sérstaklega fyrir þann dulúðuga myndheim sem birtist í verkum hans. Á löngum ferli Kjarvals sem listmálara helst sú grundvallarsýn hans óbreytt að náttúran sé lifandi þó að áherslurnar í verkum hans þróist og breytist.