
Katrín Elvarsdóttir (f. 1964) lagði stund á nám í myndlist og ljósmyndun í Bandaríkjunum. Ljósmyndaverk hennar einkennast af brotakenndum en jafnframt óræðum frásögnum, þar sem leikið er með hugmyndina um sameiginlega minningarsköpun. Verkin innihalda oft frásagnir af dularfullum atburðum sem áhorfandinn verður óafvitandi hluti af, þar sem ákveðnir hlutir eru sýnilegir en öðru er leyft að liggja á milli hluta, og það sem útaf stendur kallast fram í hugskotsjónum áhorfandans. Þannig gerast verkin innan óræðs tíma og sögusviðs, uppfull tilvísana og styðjast við kvikmyndalega aðferðarfræði, mjúkan fókus og snarpa notkun ljóss og skugga. Á sama tíma og Katrín hafnar hefðbundinni heimildanotkun ljósmyndamiðilsins nýtir hún sér rannsóknarmöguleika hans og eðlislæga eiginleika til áleitinnar myndsköpunar og fagurfræðilegrar tjáningar innan samhengis samtímalista. Verk hennar hafa verið sýnd víðsvegar hér á landi og erlendis, má þar meðal annars nefna Listasafn Reykjavíkur og Listasafn Íslands, Forum Box í Helsinki, Ljósmyndasafnið í Seoul, Martin Asbæk gallerí í Kaupmannahöfn, BERG Contemporary í Reykjavík og Frankfurter Kunstverein í Frankfurt. Hún hefur hlotið verðskuldað lof fyrir verk sín og ýmis verðlaun, meðal annars hin virtu EIKON verðlaun í Vínaborg en verndari þeirra er goðsögnin og feministinn Valie Export. Árið 2009 var Katrín tilnefnd til Deutsche Börse verðlaunana og 2009 hlaut hún Ridgefield Guild of Artists verðlaunin.