
Hafnarhús
-
Salir B, C
Á sýningunni Blómstrandi framtíð beinir Katrín sjónum sínum að plöntum sem hafa ferðast milli heimkynna.
Í verkunum mætast grípandi fegurð og hugleiðingar um uppruna. Hún veltir fyrir sér hvað það þýðir að tilheyra, að festa rætur – vera aðfluttur og samt hluti af heild.
Fjórar seríur sýningarinnar fjalla um inngrip mannsins í náttúruna: Plöntur eru fluttar á milli staða sem gjafir, sem eign, fyrir forvitnissakir eða í nafni rannsókna og framþróunar. Í forgrunni eru fjórar tegundir; kirsuberjatré, bananatré, fenjagreni og kínversk plastblóm, sem hver um sig býr yfir langri og áhugaverðri sögu sem tengir saman ólíkar heimsálfur.
Katrín fylgir plöntunum eftir með myndavélinni, tilgangurinn er ekki að kyrrsetja þær í tíma, heldur til að skrásetja og færa yfir í annað form. Á myndunum tilheyra þær enn öðrum heimi, þeim sem listamaðurinn skapar. Þær bera vitni um eitthvað sem flyst en gleymist ekki og þess sem getur blómstrað – jafnvel langt frá uppruna sínum.
Auga myndavélarlinsunnar fangar afmarkað umhverfi á örskotsstund, en Katrín skrásetur um leið sögu, menningu og náttúru sem spannar aldir og ólík heimshorn. Verk sín setur hún fram með margslunginni eftirvinnslu, ýmist í kjarna myndarinnar sjálfrar eða efnisvali. Verkin á sýningunni draga annars vegar fram hugmyndir um samvinnu og fjölbreytni, og hins vegar enduróm arfleifðar misréttis. Jafnvel það sem virðist göfugt, eins og að varðveita tegund, felur í sér ákvörðun um að taka plöntu úr náttúrulegu samhengi sínu og skilgreina henni nýjan stað. Þar með vakna spurningar um þekkingu og vald: hver skráir, hver flokkar og hvað fellur utan kerfa.
Katrín Elvarsdóttir (f. 1964) lagði stund á nám í myndlist og ljósmyndun í Bandaríkjunum. Ljósmyndaverk hennar einkennast af brotakenndum en jafnframt óræðum frásögnum, þar sem leikið er með hugmyndina um sameiginlega minningarsköpun. Verkin innihalda oft frásagnir af dularfullum atburðum sem áhorfandinn verður óafvitandi hluti af, þar sem ákveðnir hlutir eru sýnilegir en öðru er leyft að liggja á milli hluta, og það sem útaf stendur kallast fram í hugskotsjónum áhorfandans. Þannig gerast verkin innan óræðs tíma og sögusviðs, uppfull tilvísana og styðjast við kvikmyndalega aðferðarfræði, mjúkan fókus og snarpa notkun ljóss og skugga.


Sýningarstjóri
Bryndís Erla Hjálmarsdóttir
Kynningarmynd
Fenjagreni í San Jose, 2024
Listamenn