
Hafnarhús
-
Salir B, C
Á sýningunni Blómstrandi framtíð beinir Katrín sjónum sínum að plöntum sem hafa ferðast milli heimkynna.
Í forgrunni eru þrjár plöntutegundir – kirsuberjatré, bananatré og fenjagreni – sem hver um sig býr yfir langri og áhugaverðri sögu sem tengir saman ólíkar heimsálfur.
Katrín eltir þær með myndavélinni – ekki til að festa þær niður, heldur til að skrá þær og færa þær yfir í annað form. Í myndinni tilheyra þær enn öðrum heimi, þeim sem Katrín skapar. Þær bera vitni um eitthvað sem flyst en gleymist ekki og þess sem getur blómstrað – jafnvel langt frá uppruna sínum.
Auga myndavélarlinsunnar fangar afmarkað umhverfi á örskotsstund en Katrín Elvarsdóttir skrásetur um leið sögu, menningu og náttúru sem nær aldir aftur í tímann og spannar ólík heimshorn. Viðfangsefni nýjustu verka hennar er kvikur heimur hugmynda og upplýsinga sem flæða um veröldina og draga fram togstreitu á milli fjölbreytileika og einsleitni. Verk sín setur hún fram með margslunginni eftirvinnslu, ýmist í kjarna myndarinnar sjálfrar eða efnisvali, sem eykur enn á lagskiptingu þeirrar upplifunar sem hún ber á borð áhorfenda.
Katrín Elvarsdóttir (f. 1964) lagði stund á nám í myndlist og ljósmyndun í Bandaríkjunum. Ljósmyndaverk hennar einkennast af brotakenndum en jafnframt óræðum frásögnum, þar sem leikið er með hugmyndina um sameiginlega minningarsköpun. Verkin innihalda oft frásagnir af dularfullum atburðum sem áhorfandinn verður óafvitandi hluti af, þar sem ákveðnir hlutir eru sýnilegir en öðru er leyft að liggja á milli hluta, og það sem útaf stendur kallast fram í hugskotsjónum áhorfandans. Þannig gerast verkin innan óræðs tíma og sögusviðs, uppfull tilvísana og styðjast við kvikmyndalega aðferðarfræði, mjúkan fókus og snarpa notkun ljóss og skugga.

Sýningarstjóri
Bryndís Erla Hjálmarsdóttir
Kynningarmynd
Fenjagreni í San Jose, 2024
Listamenn