Kjarvalsstaðir
-
Á sýningunni eru mörg ný verk eftir nokkra framsæknustu listamenn landsins sem byggja á ólíkum hugmyndum þeirra um náttúruna sem fyrirbæri í ljósmynda- og vídeólist. Sýningin spannar allt frá ljósmyndum frá fyrri hluta tuttugustu aldar til innsetninga sem ungir og þekktir, íslenskir listamenn hafa gert.
Það hefur lengi þótt spennandi að ferðast norður á bóginn, og þar höfðar Ísland ekki síst til margbreytilegrar ásýndar ægifegurðar, síbreytilegrar birtingarmyndar hugtaksins. Landið hefur í gegnum aldirnar verið terra incognita í augum umheimsins, staður utan alfaraleiðar þar sem „allt getur gerst“.
Upplifun hins háleita hefur löngum verið skilgreind sem það sem kollvarpar reglu, samhengi og skipulagi. Það eru hinar jarðfræðilegu hræringar af völdum eldsumbrota og hreyfingar jöklanna sem vekja óttakennda lotningu, háleitar tilfinningar. Jafnvel mætti segja að íslenska hálendið sé fyrirtaks dæmi sígildrar hugmyndar um ægifegurð: „Allt sem virkar hliðstætt ógn er uppspretta hins háleita.“
Deilurnar um nýja virkjun og uppistöðulón á hálendi Íslands sköpuðu meðal almennings vitund um annars konar vídd í íslenskri náttúru. Þá vídd mætti kalla hvergi, framandleiki eða bara eitthvað annað. Nýleg sjónlistaverk túlka öll mikilvæga tilfærslu frá hefðbundnum viðhorfum þjóðarinnar á 20.
öld, þegar náttúran og táknmyndir hennar tilheyrðu uppbyggingu þjóðarímyndar, yfir í hnattrænar og pólitískar spurningar um framtíðina og tilgang tilveru mannsins. Í þessari tilfærslu felst ekki aðeins umræðan um stöðu listar á almennum vettvangi heldur hafa íslenskir listamenn reynt að svara alþjóðlegum spurningum um hvað það þýðir að tilheyra ákveðnum stað.
Því er rómantísk leit að samruna við náttúruna víðs fjarri áhugasviði flestra íslenskra listamanna sem taka upplifunum af óspilltu föðurlandinu með nokkrum fyrirvara. Samband þeirra við landið sem heimili, stað á jörðinni og hluta sjálfsmyndar sinnar er flókið og torskilið í augum útlendinga. Ekki síst af því að það byggist á margbrotnum texta- og myndvísunum og jafnframt felast í því viðbrögð við hinu síbreytilega Íslandi í hnattrænu samhengi umhverfis- og stjórnmála.
Á tímum gríðarlegra breytinga í heiminum, sem alþjóðlegir fjölmiðlar og síbreytileg upplýsinganet miðla okkur á óhlutbundinn hátt og eru að gjörbreyta hugmyndum nútímamannsins um staði, er ekki alltaf auðvelt að ná handfestu á þeim djúpstæðu félagslegu og landfræðilegu umskiptum sem verða fyrir augunum á okkur. Með því að setja fram nýjar skilgreiningar á ægifegurð eru íslenskir listamenn að leggja sitt af mörkum til nýrra hugmynd um hið háleita í umhverfis- og fagurfræðilegu samhengi og horfast í augu við þá staðreynd að jafnvel á Íslandi sé að finna sýnileg kennileiti hagkerfis heimsins.
Á sýningunni er með gagnrýnum hætti hugað að birtingarmyndum hugtaka á borð við hvergi og hið háleita, hvort sem þær eru hefðbundnar, tregafullar, kaldhæðnar eða af meiði róttækrar umhverfisstefnu. Sýningin er unnin á vegum Listasafns Reykjavíkur með góðum stuðningi Menntamálaráðuneytis Íslands og Landsbankans. Hún var fyrst opnuð í Centre for Fine Arts, Bozar í Brüssel og var hluti af íslensku menningarhátíðinni On the Edge frá febrúar til apríl 2008. Sýningin er á dagskrá Listahátíðar í Reykjavík 2008.
Í tengslum við sýninguna er sýningin Hvar er ég? í Norðursal en þar geta börn og fullorðnir velt fyrir sér hnettinum, landinu og kennileitum í umhverfinu. Hvaða viðmið og mælikvarða notum við til að staðsetja okkur í náttúrunni? Skemmtileg viðfangsefni og þrautir sem einnig má nota til að kynnast verkum á öðrum sýningum safnsins..
Umfjöllun fjölmiðla PDF
Sýningarskrá
Sýningarstjóri/-ar
Æsa Sigurjónsdóttir
Umfjöllun fjölmiðla
Listamenn
Boðskort
Sýningarskrá JPG