Þín samsetta sjón - Úrvals­verk úr safneign­inni 1970-2010

Þín samsetta sjón - Úrvalsverk úr safneigninni 1970-2010

Þín samsetta sjón - Úrvalsverk úr safneigninni 1970-2010

Hafnarhús

-

Á sumarsýningunni í Hafnarhúsi má finna úrval samtímalistaverka úr safni Listasafns Reykjavíkur. Á sýningunni eru verk frá árunum 1970-2010 eftir um 50 listamenn. Margir af þekktustu starfandi listamönnum á Íslandi eiga verk á sýningunni, m.a. Ólafur Elíasson, Ragnar Kjartansson, Gjörningaklúbburinn, Gabríela Friðriksdóttir og Hreinn Friðfinnsson.

Upphaf íslenskrar samtímalistar má rekja til uppreisnar  hinnar svokölluðu SÚM-kynslóðar gegn þeim miklu áhrifum sem abstrakt málarar höfðu á íslenska list snemma á sjöunda áratugnum.

Þessi kynslóð kynnti nýjar hugmyndir í listmenntun og myndaði ný tengsl erlendis. Þetta varð til þess að næstu kynslóðir íslenskra listamanna leituðu fanga víða og hafa þeir fimmtíu listamenn sem eiga verk á sýningunni sótt sér framhaldsmenntun í ekki færri en tíu löndum Evrópu og Norður-Ameríku. Þetta kemur fram í mikilli fjölbreytni á sýningunni. Miðlarnir eru bæði margir og viðfangsefnin ólík. Hér má sjá staðbundnar innsetningar, minimalíska skúlptúra, hugmyndalist í ýmsum miðlum, gjörningatengda vídeólist og verk byggð á rannsóknum.

Viðfangsefnin eru allt frá sjálfhverfri íhugun um eðli listarinnar til þjóðfélagsádeilu og afbyggingu viðtekinna hugmynda um „Norðrið“ og íslenskan menningararf.

Þótt íslenskir listamenn hafi flutt margvíslegar hugmyndir heim með sér eftir nám erlendis hafa hugmyndirnar og efnistökin þroskast enn frekar í nýju umhverfi. Sú gerjun sem hefur átt sér stað og orðræðan sem hefur skapast hér síðastliðna hálfa öld hefur sett svip á íslenska myndlist en fjölbreytnin er þó staðreynd eins og þessari sýningu er ætlað að draga fram.

Öll verkin á sýningunni eru úr safneign Listasafns Reykjavíkur en í heild teljast um sautján þúsund verk til hennar. Safneignin samanstendur af almennri listaverkaeign eftir innlenda og erlenda listamenn, Errósafni, Kjarvalssafni og Ásmundarsafni. Þessi söfn hafa ýmist orðið til fyrir stórmannlegar gjafir listamanna og einstaklinga eða kaup á listaverkum.

Listamenn: Anna Líndal (1957-), Ásmundur Ásmundsson (1971-), Birgir Andrésson (1955-2007), Birgir Snæbjörn Birgisson (1966-), Bjarni H. Þórarinsson (1947-), Bryndís Snæbjörnsdóttir / Mark Wilson (1955- / 1954-), Daníel Magnússon (1958-), Egill Sæbjörnsson (1973-), Einar Garibaldi Eiríksson (1964-), Erling T.V. Klingenberg (1970-), Gabríela Friðriksdóttir (1971-), Georg Guðni (1961-2011), Gjörningaklúbburinn / The Icelandic Love Corporartion (1996-), Guðný Rósa Ingimarsdóttir (1969-), Guðrún Hrönn Ragnarsdóttir (1956-), Guðrún Vera Hjartardóttir (1966-), Haraldur Jónsson (1961-), Harpa Árnadóttir (1965-), Helgi Þórsson (1975-), Hildur Bjarnadóttir (1969-), Hildur Hákonardóttir (1938-), Hrafnhildur Arnardóttir (1969-), Hreinn Friðfinnsson (1943-), Hulda Hákon (1956-), Hulda Stefánsdóttir (1972-), Inga Svala Þórsdóttir (1966-), Ingibjörg Jónsdóttir (1959-), Ingólfur Arnarsson (1956-), Ívar Brynjólfsson (1960-), Ívar Valgarðsson (1954-), Jón Gunnar Árnason (1931-1989), Katrín Sigurðardóttir (1967-), Kristján Guðmundsson (1941-), Magnús Pálsson (1929-), Margrét H. Blöndal (1970-), Níels Hafstein (1947-), Olga Bergmann (1967-), Ólafur Elíasson (1967-), Ólafur Lárusson (1954-), Ólafur Ólafsson & Libia Castro (1973- / 1969-), Ólöf Nordal (1961-), Ragna Róbertsdóttir (1945-), Ragnar Kjartansson (1976-), Sigurður Guðjónsson (1975-), Sigurður Guðmundsson (1942-), Sólveig Aðalsteinsdóttir (1955-), Steingrímur Eyfjörð Kristmundsson (1954-), Tumi Magnússon (1958-), Þorvaldur Þorsteinsson (1960-2013)..

Myndir af sýningu

Myndir frá opnun