D51 Sadie Cook og Jo Pawlowska: Allt sem ég vil segja þér

 Sadie Cook og Jo Pawlowska

D51 Sadie Cook og Jo Pawlowska: Allt sem ég vil segja þér

Hafnarhús

-

Alltumlykjandi tvíhyggja sem sundrast og sameinast aftur.

Á 51. sýningu D-sal sýningarraðarinnar tekur á móti þér gífurlegt magn ljósmynda og kvikra mynda í nýrri innsetningu eftir Sadie Cook og Jo Pawlowska. Myndefnið inniheldur sviðsetta drauma, bjöguð vídeó, skjáskot af samtölum á síðkvöldum, pixlaðar sjálfur og læknaskýrslur. Hvert verk endurspeglar leit listamannanna að ummerkjum lifaðrar reynslu á eigin líkama. Leyfðu þér að flæða, blandast og leysast upp í vídd þar sem stigveldi tvíhyggjunnar er hafnað og jafnvægi kemst á í óreiðu og óræðni.

Tilveran mótast af látlausri tvíhyggju þar sem við flokkum nánast allt í andstæður. Gott eða illt, ljós eða myrkur, fortíð eða nútíð, ríkur eða fátækur, veikur eða heilbrigður, sársauki eða sæla, stafrænt eða líkamlegt, karl eða kona. Í hverju pari skynjum við nánast undantekningarlaust yfirburði eins yfir öðru. Stundum augljóslega, stundum fer það leynt. Sýningin byggist á möguleikanum að geta verið til fyrir utan áskapaða tvíhyggju. Hið listræna samstarf þrífst í núningnum sem myndast þegar þráin nuddast upp við viðkvæmt líf. Sadie og Jo kanna óteljandi möguleika, suma undraverða, aðra hversdagslega, sem leynast í sprungunum.

Innsetningin myndar tvo skáskorna ása í rýminu sem færast annars vegar frá hreyfingu yfir í kyrrð, og hins vegar frá hinu opinbera til hins persónulega. Skali og staðsetning myndaklasanna móta ásamt þínu sjónarhorni sveimandi ferli sýningarinnar. Með því að leika sér með áferð, lága upplausn, samsafn ljósmynda og vídeó skapa listamennirnir rými til að deila berskjöldun sinni.

Samstarf Sadie Cook og Jo Pawlowska spratt upp af því að hvort um sig var með snoðkoll. Það þróaðist áfram í samtölum um hár, sjálfið, sjálfsmynd, uppbrot línulegrar framvindu og internetið. Listrænt samkurl hófst fyrir alvöru einn sólskinsdag í maí 2024 þegar Jo tók fyrsta skammtinn af testósteróni á meðan Sadie dýfði fótunum í slím og smellti af mynd á bleika plastmyndavél. Sýningin Allt sem ég vil segja þér er afrakstur árs langrar samvinnu þar sem hvert verk er eignað báðum listamönnum.

Sýningaröðin í D-sal hóf göngu sína árið 2007. Hér er listamönnum sem hafa mótandi áhrif á íslenska myndlistarsenu boðið að halda sína fyrstu einkasýningu í opinberu safni.

Þakkir:
Diljá Þorvaldsdóttir, Cari, Sasa Lubinska, Ljósmyndaskólinn, Stuart Richardson, Jax, Guðbjörg Theresía Einarsdóttir, Andie Sophia Fontaine, Megan Auður, Eliza Adam Thompson, Alex Diljar Birkisbur Hellsing, H. Pállson, Sigurborg Rögnvaldsdóttir, Þorgerður, Pari, Ania Piechura, Agnes Ársælsdóttir, Hyacinth Schukis, Craig, Óðinn, Heiðrún Sæmundsdóttir, Sarah, Helena, Hallgerður, Vala Sigþrúðar Jónsdóttir, Melissa Guido, Claudia Hausfeld, Hannes, Jón, Odda, Regn Sólmundur Evu.

Sýningin er styrkt af Myndlistarsjóði.

Myndir af sýningu

Myndir frá opnun