Blæbrigði Vatns­ins: Vatns­litir í íslenskri mynd­list 1880-2010

Blæbrigði Vatnsins: Vatnslitir í íslenskri myndlist 1880-2010

Blæbrigði Vatnsins: Vatnslitir í íslenskri myndlist 1880-2010

Kjarvalsstaðir

-

Blæbrigði vatnsins er fyrsta tilraun sem gerð hefur verið til skráningar á sögu vatnslitanna í íslenskri myndlist. Á sýningunni eru rúmlega 140 verk eftir 60 listamenn. Markmið sýningarinnar er að draga fram einkenni vatnslitalistarinnar, skoða fjölbreytileika hennar og hvernig hún hefur breyst í tímans rás.

Það sem einkennir mörg vatnslitaverk er mýkt og gegnsæi, að ógleymdum nánum tengslum litanna við pappírinn.

Vatnslitir kalla á kvik og óþvinguð vinnubrögð og, ef vel tekst til, verður útkoman fersk og lifandi. Hér má sjá verk margra þeirra sem mótað hafa íslenska listasögu en einnig verk lítt þekktra listamanna sem hafa notfært sér eiginleika vatnslita með eftirminnilegum hætti. Aðrir koma á óvart með myndum sem eru um margt ólíkar verkum þeirra í öðrum miðlum. Menn hafa gjarnan tengt vatnsliti við skrásetningu, hugmyndavinnu og ýmiss konar skissugerð en eins og sést á þessari sýningu hafa vatnslitir þjónað víðtækara hlutverki í listasögunni.

Vatnslitaverk eru meðal áhrifamestu verka margra íslenskra listamanna, ekki einasta Ásgríms Jónssonar, heldur einnig Finns Jónssonar, Gunnlaugs Scheving, Svavars Guðnasonar og ýmissa annarra. Auk þess hafa þeir mikilvægu hlutverki að gegna í myndlist yngri listamanna, sem notfæra sér eiginleika þessa ævaforna en síunga miðils til fullnustu.

Í tengslum við sýninguna býðst fjölskyldum að spreyta sig á að mála með vatnslitum beint á vegginn í norðursal Kjarvalsstaða og kynnast þannig eiginleikum vatnslitarins á fremur óvenjulegan máta, því oftar en ekki spilar pappír stórt hlutverk í gerð vatnslitamynda.

Í smiðjunni í norðursal er gerð tilraun til að kanna lagskiptingu vatnslitarins yfir langan tíma og skoða hvað gerist þegar málað er með gagnsæjum lit yfir annan lit. Hér gefst fjölskyldunni kjörið tækifæri til að setja sig í spor listamannsins, takast á við spennandi miðil og öðlast innsýn í eiginleika vatnslitarins..

Myndir af sýningu

Myndir frá opnun

Ítarefni

Umfjöllun fjölmiðla PDF

Sýningarskrá

Sýningarstjóri/-ar

Aðalsteinn Ingólfsson

Umfjöllun fjölmiðla

Listamenn

Boðskort

Sýningarskrá JPG