Afmæl­is­sýning Mynd­höggv­ara­fé­lagsins í Reykjavík - MHR 30

Afmælissýning Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík - MHR 30

Afmælissýning Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík - MHR 30

Hafnarhús

-

Í tilefni af 30 ára afmælis Myndhöggvarafélagsins. Sýningin er tvískipt. Fyrri hlutinn „Félagar" er haldinn Í miðrými Kjarvalsstaða 26.

janúar - 5. maí. Seinni hlutinn „MHR-30 Afmælissýning Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík" er haldinn Í Hafnarhúsi 17. ágúst - 13. október. 
Myndhöggvarafélagið í Reykjavík var stofnað 1972, og á því þrítugsafmæli á þessu ári.

Félagið varð til á miklum umbrotatímum í höggmyndalist hér á landi, en tilgangur þess var fyrst og fremst að verða vettvangur samstarfs listamanna og baráttu þeirra fyrir bættri vinnuaðstöðu og öðrum stuðningi við myndhöggvara.

Félagið hefur gegnt þessu hlutverki með miklum sóma allt frá stofnun, auk þess sem það hefur staðið fyrir ýmsum áhugaverðum sýningum í gegnum tíðina, bæði í Reykjavík og annars staðar. Í því sambandi er skemmst að minnast sýninga félagsins á strandlengjum borgarinnar á síðustu árum, sem vöktu mikla athygli.  Þessum tímamótum verður fagnað með ýmsum hætti, og meðal verkefna af þessu tilefni eru tvö samvinnuverkefni Myndhöggvarafélagsins og Listasafns Reykjavíkur. Fyrra verkefninu hefur nú verið hleypt af stokkunum, en hér er um að ræða röð þriggja sýninga, sem haldnar eru í miðrými Kjarvalsstaða til vors.

Sex listamönnum úr röðum félagsmanna hefur verið boðið að sýna saman - tveimur og tveimur í senn - og við val á listafólkinu var með vissum hætti tekið mið af sögulegri stöðu þess innan félagsins. Þannig er í hverju pari einn listamaður sem kom snemma við sögu Myndhöggvarafélagsins og annar sem hefur komið að því síðar.

Þeir sem sýna saman munu hafa með sér samvinnu um innihald og útlit sýninganna, og þannig leitast við að skapa fjölbreytta og ef til vill óvænta mynd af þeirri þróun sem hefur orðið innan íslenskrar höggmyndalistar á þeim áratugum sem liðnir eru frá stofnun félagsins. Níels Hafstein (fyrrum formaður félagsins) og Sólveig Aðalsteinsdóttir ríða á vaðið með fyrstu sýningunni, en síðan taka við þeir Hallsteinn Sigurðsson (stofnfélagi) og Þór Vigfússon.

Síðast sýna svo saman þau Ásmundur Ásmundsson og Þorbjörg Pálsdóttir (stofnfélagi), annars vegar yngsti og hins vegar elsti fulltrúi myndhöggvara í þessum hópi. Er ekki að efa að á næstu mánuðum gefst tækifæri til að sjá athyglisvert samspil verka ólíkra listamanna, sem staðfestir að góð list er ætíð ný, fersk og ánægjuleg lífsreynsla fyrir áhorfendur. Eiríkur Þorláksson, forstöðumaður. Á seinni hluta sýningarinnar í Hafnarhúsi sýna fjórtán listamenn og eru myndirnar hér á vefsíðunni frá þeirri sýningu..

Myndir af sýningu