Unnar Örn Jónasson Auðarson fæddur árið 1974 í Reykjavík. Hann útskrifaðist frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1999 og lauk meistaranámi við Listaháskólann í Malmö 2003. Unnar Örn sækir innblástur í hvers konar skrásetningu sögunnar. Formlegar heimildir, ljósmyndir, safngripir eða önnur óformlegri vegsummerki fortíðar verða listamanninum fóður í það sem hann kallar Tilraun um tímann. Spurningar vakna um sögu, verðmætamat og valdakerfi; hvað er varðveitt, af hverjum og í hvaða tilgangi?