Undraland: Unnar Örn með verk í vinnslu

Unnar Örn Auðarsson

Undraland: Unnar Örn með verk í vinnslu

Ásmundarsafn

-

Unnar Örn sækir innblástur í hvers konar skrásetningu sögunnar. Formlegar heimildir, ljósmyndir, safngripir eða önnur óformlegri vegsummerki fortíðar verða listamanninum fóður í það sem hann kallar Tilraun um tímann.

Spurningar vakna um sögu, verðmætamat og valdakerfi; hvað er varðveitt, af hverjum og í hvaða tilgangi?

Unnar Örn fær aðgang að einstöku sérsafni sem varðveitt er í Þjóðminjasafni Íslands og er enn lítt kannað og hefur þar af leiðandi margræða sögn. Ásbúðarsafn, geymir um 20 þúsund muni sem safnað var af Andrési Johnson í Ásbúð í Hafnarfirði (1885-1965). Hann ánafnaði munina safninu og þótti á sínum tíma einn mesti minjasafnari sem uppi hafði verið á landinu. Frá unga aldri safnaði hann ýmsu, s.s. póstkortum, merkjum, peningum, peningaseðlum, frímerkjum og óteljandi öðrum smámunum sem til féllu frá degi til dags.

Undraland er verkefni tileinkað sögu Ásmundarsafns. Þar var heimili og vinnustofa Ásmundar Sveinssonar myndhöggvara (1893-1982) sem hann hannaði sjálfur og byggði á árunum 1942-1950. Lóðin var í túnfæti bæjar sem hét Undraland. Ásmundur ánafnaði Reykjavíkurborg húsið og verk sín eftir sinn dag og var þar stofnað safn helgað minningu hans árið 1983. Þá fjóra áratugi sem listamaðurinn starfaði í húsinu var það vettvangur frjórrar listsköpunar. Yfir allt árið 2025 er listamönnum boðin aðstaða í húsinu til þess að vinna að eigin verkum í vinnslu eða hvers konar ferli.

Unnar Örn Jónasson Auðarson fæddur árið 1974 í Reykjavík. Hann útskrifaðist frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1999 og lauk meistaranámi við Listaháskólann í Malmö 2003. Síðasta einkasýning Unnars Arnar var í Glerhúsinu undir lok ársins 2024 og kallaðist Óminnissafnið.

Ítarefni