Karin Sander

Karin Sander

Þýska myndlistarkonan Karin Sander er þekkt víða um heim og hefur um árabil tengst íslensku myndlistarlífi sterkum böndum. Árið 1994 var fyrst haldin sýning á myndlist hennar hérlendis en þá vann hún verkið Wallpiece inn í sýningarýmið Önnur hæð. Nokkrir valdir veggfletir sýningarýmisins voru spegilfægðir með æ fíngerðari sandpappír. Til urðu gljáfægð veggverk sem fönguðu á lágstemmdan hátt sýningarýmið sjálft og gesti þess.

Verk Karin Sander byggja oft á virkri þátttöku áhorfenda, sterku hugmyndafræðilegu inntaki, glettni og einföldum leikreglum sem listakonan setur sér. Tilviljanir og tími eru breytur sem iðulega móta myndlist hennar, í því samhengi má nefna Mailed paintings þar sem hvítur, grunnaður strigi á blindramma er sendur, óvarinn, í pósti á milli sýningastaða. Stimplar, utanáskrift, límmiðar, kusk, blettir og óhreinindi taka að setja mark sitt á strigann sem síðan er hengur upp á vegg í gallerírýminu.

Karin Sander (f. 1957 í Bensberg, Þýskalandi) býr og starfar í Berlín og Zürich. Meðal nýlegra einkasýninga hennar má nefna sýningu á Arkitektúrtvíæringnum (ásamt Philip Ursprung, 2023), Kunsthalle Tübingen í Þýskalandi (2021), Base/Progetti per l’arte í Flórens á Ítalíu (2020), Haus am Waldsee í Berlín (2019), Kunstmuseum Winterthur í Sviss (2018), The National Museum of Art í Ósaka, Japan (2018), GfZK í Leipzig, Þýskalandi (2017) og Kunstmuseum Villa Zanders í Bergisch Gladbach, Þýskalandi (2017).

Hún hefur einnig tekið þátt í fjölmörgum samsýningum, m.a. í Villa Schöningen í Potsdam, Þýskalandi (2022), Akademie der Künste í Berlín (2021), Copenhagen Contemporary í Danmörku (2021), San Francisco Museum of Modern Art í Bandaríkjunum (2020), Kunsthalle Nürnberg í Þýskalandi (2019) og Casa del Lago – Goethe Institut í Mexíkóborg (2017).

Til viðbótar við kennslu sína við ETH í Zürich, þar sem hún byggði upp prófessorsstöðu í arkitektúr og listum í 15 ár og bar ábyrgð á listrænni menntun nemenda, eru verk Karin Sander sýnd um allan heim. Þau eru í eigu einkasafna og opinberra safna, svo sem Museum of Modern Art (New York og San Francisco, Bandaríkin), Metropolitan Museum (New York, Bandaríkin), Museum Abteiberg í Mönchengladbach (Þýskaland), Centro Galego de Arte Contemporanea í Santiago de Compostela (Spánn), Kunstmuseum og Staatsgalerie Stuttgart (Þýskaland), National Museum of Art í Ósaka (Japan), Kunstmuseum St. Gallen (Sviss) og Kunstmuseum Winterthur (Sviss).

Sýningar

INNSÝN - Alþjóðleg samtímalist á Íslandi.

Skoða

Aðföng 1998 - 2001. Innkaup og gjafir til Listasafns Reykjavíkur

Skoða

Maður og borg

Skoða

Gloss Galleri or 100°

Skoða

Hraðari og hægari línur - Úr einkasafni Péturs Arasonar og Rögnu Róbertsdóttur

Skoða

Annað auga - Ljósmyndaverk úr safneign Péturs Arasonar og Rögnu Róbertsdóttur

Skoða
Abrakadabra – töfrar samtímalistar

Abrakadabra – töfrar samtímalistar

Skoða

Kviksjá: Alþjóðleg safneign

Skoða