Hafnarhús
-
Sýning á alþjóðlegri samtímalist úr völdum íslenskum söfnum. Íslensk listasöfn eru ung á alþjóðlegan mælikvarða og söfnun listaverka með kerfisbundnum hætti hófst ekki fyrr en á síðari hluta 20. aldar.
Söfnunarstefna opinberu safnanna hefur vegna þessa fyrst og fremst beinst að því að skapa nokkra yfirsýn yfir íslenska myndlistarsögu, fremur en að endurspegla alþjóðlega þróun í myndlist.
Þetta hefur leitt til þess að því hefur verið haldið fram að íslensk söfn ættu nær enga alþjóðlega samtímalist, og að það takmarkaði sýn íslenskra listunnenda á erlenda myndlist. En vissulega finnast verk erlendra listamanna, þekktra sem óþekktra, á íslenskum söfnum. Listasafn Íslands, Listasafn Reykjavíkur og sérstaklega Nýlistasafnið eiga öll nokkuð úrval verka eftir erlenda listamenn, og ýmsir einkasafnarar eiga einnig fjölbreytt úrval erlendra listaverka, sem flest söfn gætu verið stolt af.
Þessari sýningu er ætlað að veita innsýn í erlenda samtímalist í eigu Íslendinga. Fengin eru að láni listaverk í eigu Listasafns Íslands, Nýlistasafnsins, og frá einkasöfnurum á borð við Pétur Arason og Rögnu Róbertsdóttur, Helga Þorgils Friðjónsson og Ingólf Arnarson[.1] , auk verka úr eigu Listasafns Reykjavíkur. Þessir aðilar og ýmsir fleiri eiga drjúgt safn erlendrar myndlistar, sem vert er að vekja athygli á.
Verkin á sýningunni eru aðeins brot af erlendum listaverkum á Íslandi.
Þau eru einkum valin út frá tengslum viðkomandi listafólks við Ísland, en mikill fjöldi erlendra listamanna hefur bundist landinu sterkum böndum og haft víðtæk áhrif á íslenskt listalíf.
Slík persónuleg tengsl hafa verið og munu um langa framtíð vera sterkasti þráður Íslendinga við erlenda samtímalist, og munu hjálpa okkur að njóta margs af því besta sem er að gerast á vettvangi alþjóðlegrar myndlistar..
Umfjöllun fjölmiðla PDF
Sýningarskrá
Sýningarstjóri/-ar
Ingólfur Arnarson
Umfjöllun fjölmiðla
Listamenn
Sýningarskrá JPG