Maður og borg

Maður og borg

Maður og borg

Kjarvalsstaðir

-

Verk úr eigu safnsins. Fyrstu spor íslenskrar menningar inn í samtíma sinn á 19. öld og við upphaf þeirrar 20.

lágu í gegnum landið. Skáldsögurnar fjölluðu um menningu hinna dreifðu sveita og það fjölskrúðuga mannlíf sem leyndist meðal bænda og hjúa þrátt fyrir erfiðar aðstæður, og ljóðin fjölluðu um landið og vonina um betra líf.

Fyrstu listmálararnir nýttu málverk sín með fáum undantekningum til að vegsama landslagið, náttúruna og þann sérstaka blæ birtunnar og blámans, sem oft hefur verið nefnd sem sérstakt einkenni íslenskrar myndlistar. Ástæður þessa voru einfaldar og sjálfsagðar.

Yfirgnæfandi meirihluti landsmanna bjó enn í sveitum landsins, og þeir fáu og fátæklegu staðir þar sem örlítið þéttbýli hafði náð að festa rætur voru lengi framan af hálfgerðar ómyndir – lágreistar kofaþyrpingar þar sem verslunarhús, íbúðarhús, gripahús og skemmur stóðu þétt saman í vonlítilli varnarbaráttu við veður og vinda, en úrgangur og afrennsli fyllti stíga og troðninga milli þeirra. Einnig var viðhorf þjóðarsálarinnar afar andsnúið þessum fáu bæjum sem þó náðu fótfestu, og einkum var það viðhorfið gagnvart Reykjavík: þetta var lastabæli sem dróg til sín auðnuleysinga, letingja, pörupilta og drykkjusvola, en ekki staður fyrir heiðvirt, dugandi fólk; það átti að sitja heima í héraði umvafið fegurð landsins og yrkja jörðina.

En bæjum tók engu að síður að vaxa fiskur um hrygg, Reykjavík, höfuðborg landsins, leiddi þá þróun, og lífið þar tók stakkaskiptum á fyrri helmingi 20. aldar.

Á þessum árum breyttist staðurinn við sundin úr sæmilegu þorpi milli tjarnar og hafnar í reisulega höfuðborg, með úthverfi langt austur í átt að Elliðaám – og sú þróun hefur haldið áfram síðan.

Það var fyrst um 1930 að kvað við nýjan tón í myndlist og skáldskap, þegar menn eins og Snorri Arinbjarnar og Tómas Guðmundsson vöktu fyrst á sér athygli með verkum sínum – málverkum og ljóðum – sem snérust um viðfangsefni sem fram að því hafði ekki verið metið verðugt til umfjöllunar í listrænum miðlum: Snorri málaði, og Tómas orti um fólkið í bænum, bæjarlífið í Reykjavík. Listfræðingurinn Björn Th. Björnsson segir um Snorra Arinbjarnar að sýning hans árið 1928 í KFUM-húsinu hafi verið “ótvíræð yfirlýsing þess, hverjum er það vildi sjá, að hér var horfið frá hefð landslagsmálverksins og inn á nýja vegu.

Áhugaefni málarans voru ekki lengur fyrir utan allt byggt ból, hafin yfir daglegan eril, heldur í venjulegu umhverfi og athöfnum fólks.” (Íslenzk myndlist II, bls.20). Árið 1933 kom út ljóðabókin Fagra Veröld eftir Tómas Guðmundsson, þar sem hann gerir Reykjavík að viðfangsefni sínu í fögnuði, fegurð og frelsi – og hlaut titilinn “Reykjavíkurskáldið” að launum, þó hann væri fæddur og uppalinn austur í Grímsnesi.

Á kreppuárunum sáu listamenn jafnvel og aðrir hve lífsbaráttan var flestum erfið, og reyndu það einnig á sjálfum sér. Það var því eðlilegt að mannlífið í borginni með öllu sínu amstri og sút yrði þeim að yrkisefni – þó gleðin yfir því að vera til fengi einnig að njóta sín.

Þeir Snorri og Tómas voru ekki einir á þessum vettvangi, því fleiri urðu til þess að gera borgarlífið að sínu yrkisefni, þó efnistökin hafi vissulega verið ólík. Halldór Laxness og Steinn Steinar skrifuðu sínar sögur og ljóð undir merkjum félagslegs raunsæis, og hjá mörgum myndlistarmönnum gætti raunsæs expressionisma, þar sem daglegt strit mannsins varð þeirra helsta viðfangsefni, líkt og hjá Snorra. Ásmundur Sveinsson, Þorvaldur Skúlason, Jón Engilberts, Gunnlaugur Scheving – allir tóku þeir á málefnum líðandi stundar í mannlýsingum sínum og myndgerð, á meðan gleðin og fegurðin naut sín í verkum manna eins og Gunnlaugs Blöndal.

Eftir þetta var borgin – líf hennar, aðdráttarafl, spilling og sprengikraftur – orðin helsti vettvangur íslenskra bókmennta, einkum skáldsögunnar. Þetta má glöggt sjá af fjölmörgum dæmum, sem tiltekin eru í sýningunni, og er að finna hjá höfundum allt frá Halldóri Laxness til Hallgríms Helgasonar. Listamenn sem komu fram á 5. og 6. áratugnum hölluðu sér margir í átt að afstraktlistinni en þó má sjá að form borgarinnar heillaði t.d. þau Karl Kvaran og Nínu Tryggvadóttur sem gerðu borginni skil í mannlausum götumyndum.

Er líða tók á 7.áratuginn fór að bera meira á myndlist með pólitísku inntaki þar sem gagnrýni á valdastéttina og ástand heimsmála var áberandi. Þetta má sjá í verkum stórborgarbúanna Errós og Rósku þar sem það er ekki lengur litla Reykjavík sem er viðfangsefni listamannanna heldur er allur heimurinn lagður undir. Á 9. áratugnum þegar nýja málverkið leit dagsins ljós varð firring og einsemd mannsins í borgarsamfélagi sem einkenndist af hraða og áherslu á efnisleg gæði að höfðuviðfangsefni margra listamanna.

Jón Óskar, Jón Axel og Jóhanna Kristín fylla þennan flokk hér á landi, en í málverkum þeirra er skuggi þunglyndis og einangrunar ætíð nálægur. Maðurinn, samfélagið og borgin eru því á vissan hátt höfuðviðfangsefni listamanna í fjölmenningarsamfélagi samtímans, en það sem greinir þá hins vegar frá fyrirrennurum þeirra á tímum heimskreppunnar er hversu ófeimnir þeir eru að sækja sér hugmyndir og efnivið í nærliggjandi ‘svið’ myndlistarinnar, svo sem arkitektúr og hönnun, kvikmyndir, fjölmiðla, auglýsingar, dans og tónlist, þannig að myndlistin í dag á sér ekki lengur nein ‘landamæri’Ungir íslenskir listamenn sem komið hafa fram á allra síðustu árum hafa flestir dvalið um lengri eða skemmri tíma í borgum út um allan heim – heim – sem á vissan hátt er alltaf að skreppa saman í einn allsherjar menningarlegan suðupott.

Þessir listamenn fjalla oft um daglegt líf og amstur borgarbúans sem lifir við menningarlegt áreiti úr öllum áttum – en þarf að sinna sínu. Það er gaman að skoða verk manna eins og Þorvaldar Þorsteinssonar og Hlyns Hallssonar þar sem þeir fjalla um hlutverk og ímynd einstaklinga í fjölþjóðlegu samfélagi. Listsköpun þeirra er undir áhrifum frá félagsfræðirannsóknum og fjölmiðlum þar sem upplýsingagildi og fagurfræði skarast.

Hið smáa í samfélaginu er einnig viðfangsefni ungra myndlistarmanna, hinn þröngi hversdagsheimur sem lýst er í verkum Ilmar Stefánsdóttur og Þórodds Bjarnasonar sýnir þörf einstaklinga í suðupotti samtímans til að leysa sín daglegu vandamál með listinni. Sumarsýningar Listasafns Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum hafa gjarna verið miðaðar við að kynna gestum safnsins ákveðið úrval úr listaverkaeign borgarinnar. Þá hefur gjarnan verið haft að leiðarljósi að skapa nokkurt yfirlit yfir listþróun 20. aldar, þar sem nokkrir þekktustu listamenn þjóðarinnar fengju notið sín – sem hefur gjarnan orðið til þess að landslagshefðin hefur reynst ríkjandi þáttur í efnisvali sýninganna.

Sýningin í ár víkur nokkuð frá þessari venju. Í henni er leitast við tefla fram verkum ólíkra listamanna sem fjalla um manninn og borgina, verkum sem spanna tímabil allt frá fjórða áratug síðustu aldar til dagsins í dag. Þekkt verk mikilsmetinna listamanna tengjast þannig nýjum framkvæmdum hinna ungu og upprennandi, og alls staðar er það maðurinn og líf hans í borginni sem er í brennidepli – viðfangsefni sem eiga eftir að lifa góður lífi í myndlistinni svo lengi sem menn hafa hinn minnsta áhuga á náunga sínum. Eiríkur Þorláksson, forstöðumaður..