Undraland: Halldór Ásgeirsson með verk í vinnslu

Halldór Ásgeirsson

Undraland: Halldór Ásgeirsson með verk í vinnslu

Ásmundarsafn

-

Síbreytilegur sköpunarkraftur jarðar er Halldóri hugleikinn.

Í verkum sínum vinnur hann með undirstöður hins náttúrulega efnisheims út frá þeirri hugmyndafræði að þar eigi sér stað stöðug tilfærsla orku á milli sviða.

Sérstakt rannsóknarefni Halldórs er til umfjöllunar í Ásmundarsafni, Skaftáreldar, sem urðu á Íslandi á 18. öld. Hið mesta hraunrennsli jarðar síðustu þúsund ár hafði ekki aðeins áhrif á jarðsöguna og olli veðurfarsbreytingum á ákveðnum stöðum í heiminum, heldur markaði ennfremur spor í mannkynssögunni. Halldór vinnur að því að kortleggja þessi tengsl og hlutgera í listaverkum sem verða til í við umbreytingu efnis við hraunbræðslu og í tilraunum með brennistein.

Undraland er verkefni tileinkað sögu Ásmundarsafns. Þar var heimili og vinnustofa Ásmundar Sveinssonar myndhöggvara (1893-1982) sem hann hannaði sjálfur og byggði á árunum 1942-1950. Lóðin var í túnfæti bæjar sem hét Undraland. Ásmundur ánafnaði Reykjavíkurborg húsið og verk sín eftir sinn dag og var þar stofnað safn helgað minningu hans árið 1983. Þá fjóra áratugi sem listamaðurinn starfaði í húsinu var það vettvangur frjórrar listsköpunar. Yfir allt árið 2025 er listamönnum boðin aðstaða í húsinu til þess að vinna að eigin verkum í vinnslu eða hvers konar ferli.

Halldór Ásgeirsson (1956) stundaði nám í myndlist við Parísarháskóla nr. 8 árin 1977-80 og 1983-86. Hann hefur dvalið mislengi um víða veröld, m.a. í Austurlöndum fjær, Mexíkó og Japan þar sem hann dvaldi á árunum 2003 - 07 og starfaði m.a. með þriðju kynslóð hins þekkta Gutai-listhóps sem var brautryðjandi í gjörningum og innsetningum á 6. áratugnum. Ferðalög Halldórs hafa skilað sér með ýmsum hætti í listsköpun hans. Halldór er nú búsettur í Reykjavík en starfrækir jafnframt vinnustofu í Búðardal.

Ítarefni

Sýningarstjóri

Markús Þór Andrésson

Fjölmiðlaumfjöllun

Listamenn