
Ásmundarsafn
-
Í verkum Ástu Fanneyjar er sterk tilfinning fyrir flæði, breytingum og hverfulleika. Hún hefur ekki bundist ákveðnum miðli en komið við á flestum þeim vígstöðvum sem kalla mætti tímatengdar.
Sem gjörningalistamaður hefur hún komið fram við ýmis tækifæri og látið reyna á samskipti við áhorfendur. Tungumálið er mikilvægur þáttur í verkum hennar, möguleikar þess og takmarkanir og spurningar vakna um hvað taki við þegar því sleppir.
Ásta Fanney hyggst nýta tímann í Undralandi til þess að henda reiður á því sem hún hefur unnið að á síðustu árum. Verkefnið liggur ekki ljóst fyrir enda má segja að það sem einkenni feril hennar sé að hlutir koma og fara, eitthvað verður til úr engu en hverfur jafnóðum á braut. Sem einhvers konar markmið hefur Ásta Fanney einsett sér að miðla niðurstöðum sínum í bókarformi. Undraland er verkefni tileinkað sögu Ásmundarsafns. Þar var heimili og vinnustofa Ásmundar Sveinssonar myndhöggvara (1893-1982) sem hann hannaði sjálfur og byggði á árunum 1942-1950. Lóðin var í túnfæti bæjar sem hét Undraland. Ásmundur ánafnaði Reykjavíkurborg húsið og verk sín eftir sinn dag og var þar stofnað safn helgað minningu hans árið 1983. Þá fjóra áratugi sem listamaðurinn starfaði í húsinu var það vettvangur frjórrar listsköpunar. Yfir allt árið 2025 er listamönnum boðin aðstaða í húsinu til þess að vinna að eigin verkum í vinnslu eða hvers konar ferli.
Ásta Fanney Sigurðardóttir (1987), fæst við myndlist, ljóðlist, kvikmyndagerð og tónlist. Hún hefur sýnt og flutt verk sín á söfnum og hátíðum víða um heim, meðal annars í Listasafni Reykjavíkur, Ars Longa, Onassis og MOT og var tilnefnd til Bernard-Heidsieck-Centre Pompidou verðlaunanna í Frakklandi árið 2021. Ásta Fanney fer sem fulltrúi Íslands á tvíæringinn í myndlist í Feneyjum árið 2026.