Rósa Gísla­dóttir og Ásmundur Sveins­son: Loftskurður

Ásmundur Sveinsson og Rósa Gísladóttir

Rósa Gísladóttir og Ásmundur Sveinsson: Loftskurður

Ásmundarsafn

-

Rósa Gísladóttir sýnir verk sín í samtali við verk Ásmundar Sveinssonar. Myndhöggvarar tveggja tíma mætast í samtali sem veitir nýja sýn á arfleifð Ásmundar ásamt því að kynna fyrir gestum ný verk starfandi listamanns.

Rósa hefur á ferli sínum fengist við ýmsan efnivið en hún er þekktust fyrir gifsskúlptúra sem hafa tekið á sig ólík form og stærðir í gegnum tíðina. Í verkum sínum vinnur Rósa gjarnan með listrænar tilvísanir í arkitektúr og menningarsöguna og mun vinna með Ásmundarsafn sjálft sem skúlptúr.

Ásmundur reisti „kúluhúsið“ við Sigtún í nokkrum áföngum á árunum 1942-59. Hann hafði þar heimili og vinnustofu og mun vinnustofustemmning þeirra beggja, Ásmundar og Rósu, mætast og vera gerð sýnileg.

Rósa Gísladóttir (f. 1957) nam myndlist í Þýskalandi, Bretlandi og á Íslandi. Verk hennar hafa verið sýnd víða hérlendis og erlendis, þar á meðal í Scandinavia House í New York, Saatchi Gallery í London, Listasafni Reykjavíkur, Hafnarborg, Listasafni Árnesinga og Berg Contemporary. Árið 2020 var Rósa fyrsti handhafi Gerðarverðlaunanna sem eru veitt framúrskarandi myndlistarmanni sem vinnur í skúlptúr og rýmisverk.

Ásmundur Sveinsson (1893–1982) var á meðal frumkvöðla íslenskrar höggmyndalistar og einn þeirra sem kynntu fyrir Íslendingum nýjar hugmyndir í myndlist 20.

aldar. Ásmundur sótti innblástur í íslenskar sagnir og þjóðtrú en samfélagið og tækniframfarir 20. aldar voru honum einnig ríkuleg uppspretta hugmynda. Verk Ásmundar eru á opinberum stöðum víða um land og setja svip sinn á Reykjavík. Hann hélt alla tíð tryggð við þá afstöðu að listin ætti erindi til fólksins og ætti heima á meðal þess. Ásmundur ánafnaði Reykjavíkurborg verk sín ásamt heimili sínu eftir sinn dag. Ásmundarsafn við Sigtún var opnað formlega vorið 1983 og þar hafa verið settar upp fjölbreyttar sýningar..

Myndir af sýningu

Myndir frá opnun

Ítarefni

Umfjöllun fjölmiðla PDF

Sýningarskrá

Sýningarstjóri/-ar

Aldís Snorradóttir , Edda Halldórsdóttir

Listamenn

Boðskort

Boðskort