Hafnarhús
-
Listasafn Reykjavíkur sýnir verkið Heimsljós – líf og dauði listamanns frá árinu 2015 eftir Ragnar Kjartansson.
Verkið er myndbandsinnsetning á fjórum skjáum og unnin upp úr skáldsögu Halldórs Kiljans Laxness, Heimsljós (1937–40). Sagan fjallar um lífshlaup Ólafs Kárasonar Ljósvíkings, niðursetnings og alþýðuskálds sem aldrei á fullkomna samleið með öðru fólki. Skáldsagan skiptist í fjórar bækur og á því byggist uppsetning myndbandsinnsetningarinnar. Árið 2025 eru 10 ár liðin frá gerð listaverksins Heimsljós og 70 ár frá því að Halldór Laxness hlaut Nóbelsverðlaunin.
Við gerð verksins stýrði Ragnar hópi vina og ættingja úr reykvísku listalífi í mánaðarlöngum gjörningi í Thyssen-Bornemiza-samtímalistasafninu í Vín. Gjörningurinn bar heitið Höll sumarlandsins og þar gátu sýningargestir bæði fylgst með framrás kvikmyndarinnar og vinnslunni við hana baksviðs og utansviðs. Kvikmyndaverkið býr yfir sama flökti á milli sviða þar sem við sjáum ekki einvörðungu tökuna sjálfa heldur jafnframt augnablikið þar á undan og eftir. Allar tökurnar á rúmlega áttatíu atriðum myndarinnar eru sýndar óklipptar, hvernig svo sem til tókst eða hve oft þurfti að endurtaka þær. Niðurstaðan verður nokkurs konar kúbísk kvikmynd; viðstöðulaus og brotakennd heild sem snertir á epískum skala mannlegra tilfinninga og örlaga.
Listamenn