Ragnar Kjart­ans­son: Guð, hvað mér líður illa

Ragnar Kjartansson: Guð, hvað mér líður illa

Hafnarhús

-

Ragnar Kjartansson heldur fyrstu safnsýningu sína á heimavelli eftir sigurför á erlendri grundu á undanförnum árum. Þar á meðal eru meiriháttar yfirlitssýningar í virtum söfnum báðum megin við Atlantshafið. Þegar hér er komið sögu á ferli listamannsins kann titillinn Guð, hvað mér líður illa að koma nokkuð á óvart.

En Ragnar talar ekki aðeins fyrir sjálfan sig heldur okkur áhorfendur með því að minna á hjálpræði listarinnar. Þetta sést vel í opnunarverkinu, hinum fyrsta af þremur lifandi gjörningum á sýningartímabilinu, sem ber heitið Til tónlistarinnar, 2012 Það byggist á ljóðlínum Schobers sem gefur í skyn að listin geti flutt okkur öll á betri stað, „frá drunga heims til drottins himinvega“. Ragnar er ennfremur fyrstur til að viðurkenna að heimur listarinnar, sem hann hrærist í, er hverfull. „Ég trúi ekki á sannleika listarinnar. Eins og móðir mín segir; „Látum ekki góða sögu gjalda sannleikans.““
(Calvin Tomkins, „Play it Again“, The New Yorker, 11.

apríl 2016)

Listamaðurinn hefur kannað mögnuð áhrif listarinnar á ýmsa mismunandi vegu og síendurtekið boðið byrginn þeirri blekkingu sem óhjákvæmilega felst í henni. „Ég held raunar að eina sanna listin felist í því að njóta listar.“
(Ragnar Kjartansson, The End, 2009)

Og hér er sannarlega nóg fyrir áhorfendur að njóta. Sýningin í Listasafni Reykjavíkur endurspeglar óð Ragnars til listarinnar í allri sinni dýrð, til tónlistar, leikhúss, kvikmynda, bókmennta og – að sjálfsögðu – myndlistar. Hylling listamannsins birtist í völdum verkum, frá árinu 2004 til dagsins í dag; lifandi gjörningum, stórum myndbandsinnsetningum, ljósmyndum, höggmyndum, málverkum og teikningum. Eitt mikilvægra verka í sýningunni er Heimsljós – líf og dauði listamanns, 2015. Þessi fjögurra rása vídeóinnsetning samanstendur af rúmlega tuttugu klukkutímum af skrásetningu tilraunar til að skapa hina fullkomu listupplifun. Að baki er löngun til þess að búa til kvikmynd sem byggir á skáldsögu Nóbelskáldsins Halldórs Laxness. Bakgrunnur sviðsmyndarinnar er málaður, lifandi tónlistin flutt á staðnum og leikurinn í höndum listamannsins sjálfs og félaga hans. Þetta er risavaxið „Gesamtkunstwerk“ sem sameinar lykilþætti í listsköpun Ragnars. Listasafn Reykjavíkur er stolt af að bjóða upp á þessa margbrotnu sýningu. Hafnarhúsið verður undirlagt undir verk Ragnars og innsýn veitt inn í hinn marglaga heim sem hann hefur skapað í áranna rás. Mörg verkanna hafa aldrei áður verið sýnd á Íslandi, sérstaklega sum nýlegri verkin sem hafa leikið lykilhlutverk í að tryggja listamanninum sess í alþjóðlega listaheiminum. Ennfremur verða sýnd athyglisverð eldri verk sem sjaldan eru til sýnis. Sýningin er eitt viðamesta verkefni sem Listasafn Reykjavíkur hefur ráðist í frá upphafi og er GAMMA þakkaður stuðningur við sýninguna. Sýningarstjórinn Markús Þór Andrésson segir að „verk Ragnars afhjúpi að hve miklu leyti við sköpum stöðugt raunveruleikann í kringum okkur, og leikræn nálgun hans minnir okkur á ánægjuna sem við megum leyfa okkur að njóta við þá sköpun.“
(Ragnar Kjartansson, Koenig Books, 2016). Ragnar fæddist inn í leikhúsfjölskyldu og notar gjarnan leikræn tilþrif og sviðsetningu í verkum sínum. Hann flakkar auðveldlega á milli ólíkra listforma, gerir tónlistina að höggmynd, málverkið að gjörningi og kvikmyndina að uppstillingu. Rauði þráðurinn er alltaf gaumgæfileg athugun á mannlegu eðli, marglaga tilfinningar, félagslegar víddir og hinir mótsagnakenndu þættir sem hversdagslíf okkar allra samanstendur af. Ragnar Kjartansson fæddist í Reykjavík árið 1976, býr hér og starfar. Hann útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands árið 2001 og nam við Konunglegu listaakademíuna í Stokkhólmi árið 2000. Hann hefur haldið ótalmargar einkasýningar, tvær þær síðustu voru í Barbican Centre í London og Hirshhorn-safninu í Washington DC. Ennfremur hafa verk hans verið miðdepill þýðingarmikilla sýninga í bandarískum og evrópskum söfnum á borð við Palais de Tokyo í París (2015-16), New Museum í New York og Nútímalistasafninu í Boston (2014). Gjörningar hans, uppákomur og hópsýningar spanna margra ára tímabil víða um lönd..

Myndir af sýningu

Myndir frá opnun