Kjarvalsstaðir
-
Ólga: Frumkvæði kvenna í íslenskri myndlist á 9. áratugnum er samsýning sem fjallar um afgerandi hlutverk kvenna í mótun íslenskrar listasenu á miklum umbreytingatímum níunda áratugs liðinnar aldar.
Á sýningunni er leitast við að skoða flókið tengslanet, sterkan vef og djarft frumkvæði kvenna sem einkenndi þennan tíma listrænnar nýsköpunar.
Á áttunda áratugnum lagði önnur bylgja femínisma grunninn að kvenfrelsisbaráttu um allan hinn vestræna heim sem leiddi af sér aukinn sýnileika kvenna og ýmsar breytingar innan stofnana. Með því að byggja á ávinningi áttunda áratugarins, sem oft hefur verið kallaður „kvennaáratugurinn,“ færði níundi áratugurinn konum frekari réttindi og skoraði ríkjandi viðmið listheimsins á hólm. Þessi kvennabarátta lagði því grunninn að nýjum áskorunum næstu kynslóða myndlistarkvenna sem ýttu enn við mörkum samtímalista.
Á meðan Ísland gekk í gegnum verulegar félagslegar og menningarlegar breytingar, stigu konur fram sem róttækar raddir, sigldu inn í og mótuðu listheim sem var að mestu leyti karllægur. Með samstöðu og sameiginlega sýn á lofti ruddu þær nýjar brautir í tjáningu, frá gjörningum til hugmyndalista, og endurskilgreindu listhugtakið. Ólga varpar ljósi á samvinnu og tengslanet þessara listakvenna, gagnkvæman stuðning og ástríðu, en þær sprengdu upp fyrirframgefnar væntingar um leið og þær lögðu grunn að nýrri framtíðarsýn.
Sýningin er afrakstur árslangrar rannsóknarvinnu þar sem áhersla hefur verið lögð á samtöl við listamenn og leit að óþekktum verkum. Verkin endurspegla fjölbreyttan sköpunarhátt listakvennanna og hefur að geyma gjörninga, vídeó, ljósmyndir, skúlptúr, prentverk. Listinn er ekki tæmandi, en hvert einasta valið verk birtist ekki aðeins sem einstök höfundasýn heldur fellur verkið einnig inn í stærra sögulegt samhengi listrænna samskipta og áhrifa. Mörg verkanna, auk efnis úr skjalasöfnum, eru nú sýnd í fyrsta sinn síðan á níunda áratugnum. Þau veita ferska innsýn inn í þetta áhrifaríka tímabil í íslenskri listasögu.
Ólga er meira en sýning—hún er virðingarvottur til þeirra kvenna sem settu mark sitt á liststofnanir þessa tíma—stofnuðu netverk listrænna tengsla og frumkvæðis sem heldur áfram að móta samtímalist. Samstarfið sem einkenndi listvettvang kvenna á níunda áratugnum leiddi ekki aðeins til nýsköpunar heldur hafði einnig áhrif á þróun sýningarhalds - og safnastarf og stuðlaði að dýpri skilningi á samtímalist á Íslandi.
Samhliða sýningunni fylgir bók sem fjallar ítarlega um sögurnar á bak við listina og listumhverfi þessa tíma. Hún inniheldur rannsóknargreinar Becky Forsythe, sýningarstjóra og Heiðu Bjarkar Árnadóttur, listfræðings, viðtöl við listakonur, myndir af listaverkum og heimildir sem bregða ljósi á tengslanetin og samböndin sem nærðu tímabilið. Með útgáfunni er ætlunin að varðveita og heiðra framlag þessara brautryðjenda og sýna fram á hvernig verk þeirra halda áfram að hljóma og veita innblástur.
Árið 2021 fékk Listasafn Reykjavíkur Öndvegisstyrk Safnaráðs til að stofna þrjár rannsóknarstöður í samstarfi við Listfræði við Háskóla Íslands. Þær skyldu helgaðar rannsóknum á framlagi kvenna til íslenskrar listasögu. Fyrsta sýningin var í höndum Sigrúnar Ingu Hrólfsdóttur sem rannsakaði feril Hildar Hákonardóttur (2023). Sú síðari heiðraði verk Borghildar Óskarsdóttur undir stjórn Aðalheiðar Lilju Guðmundsdóttur (2024). Ólga: Frumkvæði kvenna í íslenskri myndlist á 9. áratugnum er þriðja og síðasta sýningin í þessari röð. Hún byggir á rannsóknum Becky Forsythe, sýningarstjóra.
Listamenn sem eiga verk á sýningunni eru Ásta Ólafsdóttir, Brynhildur Þorgeirsdóttir, Erla Þórarinsdóttir, Gerla, Harpa Björnsdóttir, Margrét Jónsdóttir, Rúna Þorkelsdóttir, Rúrí og Svala Sigurleifsdóttir.
Kynningarmynd sýningar
Rúrí, Blær, 1980
Sýningarstjóri
Becky Forsythe
Listamenn