Með viljann að vopni - Endurlit 1970 -1980

Með viljann að vopni - Endurlit 1970 -1980

Með viljann að vopni - Endurlit 1970 -1980

Kjarvalsstaðir

-

Á sýningunni er megináherslan lögð á áttunda áratug síðustu aldar, sem var fyrir margra hluta sakir viðburðaríkur á ýmsum sviðum íslensks samfélags, jafnt efnahagslega sem félags- og menningarlega. Oft er skírskotað til hans sem „kvennaáratugarins“ en nýja kvennahreyfingin, sem nefnd hefur verið önnur bylgja femínisma og laust niður sem eldingu austan hafs og vestan, barst einnig til Íslands og fór af stað á fullri ferð.

Á sýningunni er litið aftur til áranna 1970-1980 en sýnendurnir tuttugu og sjö eiga það sameiginlegt að vera meðal þeirra fjölmörgu, íslensku kvenna sem þá störfuðu að myndlist. Margar þeirra komust til þroska í andrúmi þessa tíma, þótt aðrar hafi þá þegar verið mótaðar.

Meðal viðburða sem mörkuðu kvennaáratuginn eru stofnun Rauðsokkahreyfingarinnar og skipun fyrsta kvenráðherrans, Auðar Auðuns, fyrir fjörutíu árum.

Fyrsti kvennafrídagurinn var skipulagður fyrir 35 árum og Vigdís Finnbogadóttir var kjörin í embætti forseta fyrir þrjátíu árum. Auk þess er vert að minnast þess að á þessu ári er öld liðin frá því að íslenskar konur öðluðust kosningarétt í bæjar- og sveitarstjórnarkosningum.

Sýningunni verður fylgt úr hlaði með ýmsu móti. Gefin verður út bók, prýdd fjölda mynda og efnt verður til fjölmargra viðburða sem tengjast kvennaáratugnum og unnir eru í samstarfi við Skotturnar, opinn samstarfsvettvang ætlaðan til virkni í þágu jafnsréttisbaráttu, með kvennafrídaginn sem útgangspunkt.

Sýningarstjóri er Hrafnhildur Schram.

Smiðja: Opin og fræðandi smiðja fyrir fjölskylduna er sett upp í Norðursal í tengslum við sýninguna..

Myndir af sýningu

Myndir frá opnun