Kjarval og 20. öldin: Þegar nútíminn lagði að

Paintings in a gallery.

Kjarval og 20. öldin: Þegar nútíminn lagði að

Kjarvalsstaðir

-

Á sýningunni getur að líta myndlistarverk íslenskra listamanna frá um sex áratuga skeiði eftir aldamótin 1900.

Verkin spanna það tímabil sem listmálarinn Jóhannes S. Kjarval var starfandi. Þegar litið er á feril Kjarvals og hann speglaður í verkum samtíðarmanna hans sést hvernig myndlistin tekur breytingum og þróast. Tíðarandi sem var ríkjandi hverju sinni endurspeglast í ólíkum stílbrigðum og verkin gefa innsýn inn í hugðarefni höfunda, umhverfi þeirra og aðstæður. Framan af ríkti rómantísk náttúrusýn en fljótlega kom táknsæi til sögunnar og fyrstu skrefin voru stigin í þá átt að brjóta upp natúralískt myndmál.

Kjarval var fæddur árið 1885 og lést árið 1972. Himinn og haf eru á milli þessara tímapunkta í menningarsögunni og samfélaginu öllu á heimsvísu. Þetta var tími mikilla félagslegra umbreytinga, iðnvæðingar, þéttbýlisþróunar og tækniframfara. Íslenskir listamenn fóru utan til náms og komu heim með nýjar hugmyndir, innblásnir af þeim straumum og stefnum sem þeir kynntust í Evrópu. Myndlistarmenn eru sannarlega ekki eylönd í heimssögunni heldur takast í verkum sínum á við ólíkar aðstæður, nýjungar, byltingar og átök. Með innreið nútímalegra gilda í íslenskt samfélag þróuðust viðfangsefni og aðferðir listamanna, myndmál var brotið upp og abstraktið ruddi sér til rúms. Nútíminn lagði að í íslensku samfélagi eins og berlega má sjá í framvindu listsköpunar ólíkra listamanna og í ævistarfi Kjarvals.

Jóhannes Sveinsson Kjarval, Sjálfsmynd, um 1920.
Jóhannes Sveinsson Kjarval, Ofar skýjum, 1967.

Árið 1973, ári eftir að Kjarval féll frá, voru Kjarvalsstaðir vígðir og nefndir eftir honum. Kjarval er einn af ástsælustu listamönnum þjóðarinnar og hafa verk hans verið til sýnis hér í hálfa öld.

Verk hans og annarra listamanna á sýningunni eru úr safneign Listasafns Reykjavíkur að undanskilinni Fjallamjólk Kjarvals sem er eitt þekktasta verk listamannsins og er fengið að láni frá Listasafni ASÍ.

Jóhannes Sveinsson Kjarval, Fjallamjólk, 1941.

Ítarefni