Kjarval - Innsýn Skjald­meyjar og hugar­fley

Kjarval - Innsýn Skjaldmeyjar og hugarfley

Kjarval - Innsýn Skjaldmeyjar og hugarfley

Kjarvalsstaðir

-

Teikningar og skissur í Kjarvalssafni Listasafns Reykjavíkur nema þúsundum. Listasafn Reykjavíkur hefur undanfarin misseri fært þær í rafrænt form með það fyrir augum að gera rannsóknarvinnu á verkum hans auðveldari og til að skoða nánar ákveðin viðfangsefni í verkum hans. Þær verur sem birtast í myndheimi Kjarvals eru afar fjölbreytilegar en á sýningunni er sjónum annars vegar beint að skjaldmeyjum og hins vegar bátum eða hugarfleyjum sem virðast brúa bilið milli mannheima og hulduheima.

Skjaldmeyjar og bátar bera reglulega við í litlum skissum og teikningum Kjarvals og hafa þær sjaldan eða aldrei verið sýndar.

Á sýningunni gefst kostur á að sjá hvernig þessi viðfangsefni ganga aftur í málverkum hans. Á næstu misserum er fyrirhugað að sýna hvernig Kjarval vann sömu hugmyndina aftur og aftur í mismunandi efnivið. Meðal þess myndefnis sem Kjarval var hugleikið eru kýr, skjaldmeyjar, vængjaðir hestar, bátar, hörpur, englar og fuglar. Hugarfley.

Skútur og skip eru síendurtekið stef í myndheimi Kjarvals. Þegar hann lærði að skrifa ungur drengur á Borgarfirði Eystri segist hann hafa teiknað skip í aðra hverja línu í stílabókina sína.

Fólksflutningarnir til Ameríku voru honum einnig hvati en hann teiknaði skipin sem fluttu vesturfarana til fyrirheitna landsins og gaf ferðalöngunum. Skipið varð smám saman að tákni um breytingar og von um annars konar líf handan hafsins og átti eftir að verða leiðarstef í myndlist Kjarvals alla tíð.

Kjarval þróaði hugmyndir sínar með skissum og teikningum á fjölbreyttan efnivið sem síðar ganga aftur í málverkum hans. Á þessari sýningu sjáum við skipin sem hugarfley sem virðast brúa bilið milli mannheima og hulduheima og eru ýmist í forgrunni myndflatarins eða langt í fjarska, á siglingu í bakgrunninum. Skjaldmeyjar. Sverð og skjöldur eru einkennismerki skjaldmeyjarinnar. Hún birtist í verkum Kjarvals sem hálfgegnsæ vera, svífandi í lausu lofti nær alltaf í sömu stellingunni.

Skjaldmeyjan er sögð táknmynd fjallsins Skjaldbreiðar sem var eitt hjartfólgnasta myndefni listamannsins á Þingvöllum. Hún skírskotar einnig til samnefnds kvæðis eftir Jónas Hallgrímsson. Á mörgum verkanna sést glitta í fjallstoppa Skjaldbreiðar í bakgrunni. Skissurnar gefa innsýn í vinnuaðferðir listamannsins og hvernig hann síendurtekur sama myndefnið á eins ólík efni og striga og kvittun frá leigubílastöð..

Myndir af sýningu

Ítarefni

Sýningarstjóri/-ar

Helga Lára Þorsteinsdóttir

Listamenn