Drauma­land

Jóhannes Sveinsson Kjarval, vatnslitur á pappír

Draumaland

Kjarvalsstaðir

-

Fantasíurnar, sem gjarnan innihalda huldufólk, dulrænar verur og táknmyndir, áttu eftir að fylgja honum alla ævi...

Á sýningunni er sjónum beint að fantasíuverkum Kjarvals sem innihalda dulspekilegar og trúarlegar vísanir og táknmyndir. Auk verka Kjarvals eru sýnd málverk Einars Jónssonar sem fengin eru að láni frá Listasafni Einars Jónssonar.

Kjarval ferðaðist mikið á lífsleiðinni, bæði um eigið land og útlönd. Hann varð fyrir áhrifum frá fólki og nærumhverfi sínu, las mikið og kynnti sér strauma og stefnur sem ríkjandi voru. Meðal áhrifavalda í lífi listamannsins má nefna kollega hans og vin, Einar Jónsson myndhöggvara (1874-1954), og enska listamanninn William Blake (1757-1827). Kjarval kynntist Einari í London árið 1911 þegar þeir dvöldu þar samtíða um þriggja mánaða skeið og varð vel til vina. Einar var þekktur fyrir goðsöguleg og trúarleg myndefni og lagði áherslu á táknrænar merkingar í höggmyndum sínum og málverkum. Í bókum og á söfnum stórborgarinnar komst Kjarval svo í kynni við verk Blakes. Hann var eitt fremsta rómantíska skáld Englands og þekktur fyrir fínlegar og dulúðugar teikningar, hlaðnar trúarlegum táknum og vísunum.

Á sýningunni hefur verið safnað saman verkum Kjarvals sem eiga það sameiginlegt að vera sprottin úr hugarheimi handan þess sem er áþreifanlegt og auðskiljanlegt. Verkin eru ýmist með skýrar trúarlegar vísanir í Biblíuna og kristileg minni eða eru óræðari fantasíur hlaðnar táknum, hinu yfirskilvitlega og dulræna. Slík hugðarefni bjuggu í Kjarval alla tíð en eftir dvölina í London og viðkynnin af heimslistinni og innsýn í alþjóðlegan táknheim symbólisma má greina breytingu í áherslum og stílbrigðum sem Kjarval átti svo eftir að þróa á sinn persónulega hátt í gegnum allan ferilinn.

Einar Jónsson, Til ljóssinss
Jóhannes Sveinsson Kjarval, Hin heilaga skírn, 1924

Sýnd verða verk frá öllum ferli Kjarvals. Árið 1908 hélt hann sína fyrstu sýningu í Reykjavík og sýndi þar fyrsta sinni fantasíuverk, þá 22 ára gamall, þegar hann hafði ekki enn farið til London eða hlotið formlega listmenntun. Fantasíurnar, sem gjarnan innihalda huldufólk, dulrænar verur og táknmyndir, áttu eftir að fylgja honum alla ævi og taka breytingum og þróast í gegnum ferilinn. Fyrir og í kjölfar London-dvalarinnar gerði Kjarval þó nokkuð af svokölluðum „draumalands-verkum“ sem gjarnan birta órætt landslag, fossa og verur í landslagi og er ætlunin að safna saman eins mörgum af þessum myndum og hægt er.

Jóhannes Sveinsson Kjarval (1885-1972) er einn ástsælasti listamaður þjóðarinnar og fjölbreytt lífsverk hans nær yfir fjölda málverka af náttúru landsins, kynjaverum og fólkinu í landinu. Árið 1968 ánafnaði Kjarval Reykjavíkurborg stóran hluta listaverka sinna og persónulegra muna og hafa verk hans verið kynnt með ýmsu móti frá því Kjarvalsstaðir voru opnaðir árið 1973.

Myndir af sýningu

Myndir frá opnun

Jóhannes Sveinsson Kjarval, vatnslitur á pappír

Sýningarstjóri

Edda Halldórsdóttir

Kynningarmynd

Jóhannes Sveinsson Kjarval, vantslitur á pappír, í eigu Lífspekifélagsins.

Fjölmiðlar

Fjölmiðlar (pdf)

Listamenn