Kjarvalsstaðir
-
Jóhannes Sveinsson Kjarval (1885-1972) er einn ástsælasti listamaður þjóðarinnar og arfleifð hans lifir í fjölbreyttu lífsverki sem nær yfir fjölda málverka af náttúru landsins, kynjaverum sem þar leynast og fólkinu í landinu. Þannig má skipta myndefni Kjarvals gróflega í þrjá hluta; landslagsmyndir, fantasíur og mannamyndir. Þó skarast þetta oft þannig að í sömu myndinni getur verið að finna allar myndgerðirnar.
Í landslagsmyndum sínum birti Kjarval íslenska náttúru á gjörólíkan hátt en áður hafði tíðkast og kenndi landsmönnum að horfa á landið nýjum augum og meta fegurðina sem býr í hrauninu og mosanum við fætur okkar.
Kjarval skipar stóran sess í íslenskri menningar- og listasögu og hefur veitt síðari kynslóðum listamanna ómældan innblástur. Titill sýningarinnar er fenginn úr ljóðinu Æðsta skepna jarðarinnar eftir Kjarval, sem birtist í Árdegisblaði listamanna árið 1925, en Kjarval var útgefandi blaðsins. Æðsta skepna jarðarinnar
Það ert þú!
fagri fugl - sem eg
trúði á eitt augnablik
- heilan dag, eða
hálfa stund. Þú varst merki mitt
fyrir öðru sem
hjarta mitt þráði. Þú varst lífgjafi
stórra vona.
Þú lýstir ást minni
er þú þaust um
götuslóða.
Á móum risu
blóm með litum
lífsins - þau voru
æðst alls sem eg þekti
- því eg snerti ekki
eitt einasta vegna þín. Jóhannes fæddist að Efri-Ey í Meðallandi árið 1885 en ólst upp hjá ættingjum í Geitavík í Borgarfirði Eystri til sextán ára aldurs. Um tvítugt tók hann sér írska konungsnafnið Kjarval og notaði það allt til æviloka. Árið 1902 flutti hann til Reykjavíkur, aðeins tveimur árum eftir að Þórarinn B. Þorláksson setti upp fyrstu myndlistarsýninguna á Íslandi. Kjarval sótti námskeið í teikningu og málun bæði hjá Þórarni og Ásgrími Jónssyni í Reykjavík en hugur hans stefndi út í heim. Hann fór fyrst til London árið 1911 en síðan til Danmerkur í formlegt nám. Hann útskrifaðist frá Konunglega listaháskólanum í Kaupmannahöfn árið 1917 og flutti til Íslands að námi loknu. Kjarval málaði víða um land, á Þingvöllum og öðrum stöðum í nágrenni Reykjavíkur, en einnig ferðaðist hann víðar og málaði á Snæfellsnesi, Skagaströnd og Borgarfirði Eystri.
Árið 1968 ánafnaði Kjarval Reykjavíkurborg stóran hluta listaverka sinna og persónulegra muna og hafa verk hans verið kynnt með ýmsu móti frá því Kjarvalsstaðir voru opnaðir árið 1973. Safneignin hefur vaxið jafnt og þétt í gegnum árin; bæði hafa verið keypt verk í safnið og einnig hefur borist fjöldi ómetanlegra gjafa frá einstaklingum. Á sýningunni má sjá verk úr safneigninni sem spanna allan feril Kjarvals, frá því áður en hann hóf formlegt listnám, verk gerð á námsárunum í Kaupmannahöfn og allt til loka ferilsins..