Jóhannes S. Kjar­val: Í íslenskum litum

Kjarval í íslenskum litum

Jóhannes S. Kjarval: Í íslenskum litum

Kjarvalsstaðir

-

Á sýningunni er  leitast við að varpa ljósi á litinn í verkum Jóhannesar Kjarvals (1885-1972) og kanna hvernig litanotkun hans var háttað. Hann notaðist við fjölbreytta liti í verkum sínum – veður og birtuskilyrði hverju sinni stýrðu litavali landslagsverka, og í fantasíum og öðrum verkum var það hrein tilfinning og persónuleg sýn listamannsins sem réði för. Skarpir litir, fjólublár, bleikur og gull eru meðal lita sem finna má í mörgum verkum Kjarvals.

Ýmist málaði hann örþunnt eða kreisti þykkan litinn beint úr túpunni á strigann. Á sýningunni eru verkin valin með það í huga að endurspegla frjálslega litanotkun og flæði hugmynda og tjáningar í list Kjarvals. 

Í grein sem Hörður Ágústsson skrifaði í Þjóðviljann 1954 fjallar hann um liti Kjarvals og segir hann hafa verið fæddan „kolorista“. „Hann seiðir fram hin örfínu blæbrigði litborðans og gefur þeim tengsl við hrjóstruga náttúru lands síns, fíngráa mosaþembu, blásvart hraunberg, brúna uppblásna moldina. En um leið binzt litur hans aldurlausri þjóðsögu, lífi landsins og fólksins.“ (Hörður Ágústsson, Þjóðviljinn, 10. október 1954)

Sýningin ber titilinn Í íslenskum litum en hugtakið er tengt Birgi Andréssyni myndlistarmanni (1955-2007) sem vann á ferli sínum fjölda verka í litum sem hann skilgreindi sem íslenska og merkti með litanúmeri og orðinu „íslenskur“ fyrir framan.

Litirnir sem Birgir skilgreindi voru litatónar sem honum þótti gegnumgangandi í sjónrænum menningararfi þjóðarinnar. 

Hér eru verk Kjarvals skoðuð út frá hinum íslensku litum en verkin eru fjölbreytt og sýna persónulega tjáningu listamannsins og þá litauðgi sem hann ljáði verkum sínum. Kjarval rannsakaði liti og litbrigði íslenskrar náttúru og hafði þá afstöðu að náttúran sjálf væri litaspjald. Í tímaritinu Líf og list birtist í nóvember 1950 grein eftir Kjarval sem hann nefndi Íslenskt litaspjald. Greinin er óður til íslenskra listamanna um að vinna saman að þróunarsögu og skrásetningu á „hinu íslenska litaspjaldi“ og þeirri litadýrð sem býr í íslenskri náttúru. 

Á sjöunda áratugnum tók Kjarval að fást við litaspjöld sem myndefni og birti þau gjarnan úti í náttúrunni, samofin hrauni og mosa. Þannig undirstrikaði hann hin órjúfanlegu tengsl á milli litanna og náttúrunnar. Fram að þessu hafði hann einnig gert ýmsar landslagsmyndir sem hann nefndi Litaspjald. Síðasta verk Kjarvals, sem stóð á trönum í vinnustofu hans þegar hann lagðist inn á spítala vegna veikinda 1968, var af tómu litaspjaldi og kom hann ekki til með að mála meira eftir það. 

Kjarval er einn ástsælasti listamaður þjóðarinnar og fjölbreytt lífsverk hans nær yfir fjölda málverka af náttúru landsins, kynjaverum og fólkinu í landinu. Árið 1968 ánafnaði Kjarval Reykjavíkurborg stóran hluta listaverka sinna og persónulegra muna og hafa verk hans verið kynnt með ýmsu móti frá því Kjarvalsstaðir voru opnaðir árið 1973. Verkin á sýningunni eru öll úr safneign Listasafns Reykjavíkur..

Myndir af sýningu

Ítarefni

Umfjöllun fjölmiðla PDF

Sýningarstjóri/-ar

Edda Halldórsdóttir

Listamenn