Hall­grímur Helga­son: Usli

Málverk

Hallgrímur Helgason: Usli

Kjarvalsstaðir

-

Usli vitundarinnar, usli mannsævinnar og usli veraldarsögunnar − eru eins og rauður þráður í gegnum þann fjögurra áratuga myndlistarferil sem hér er tekinn til skoðunar.

Á sýningunni Usli er sjónum beint að höfundarverki myndlistarmannsins Hallgríms Helgasonar, sem er raunar ekki síður þekktur fyrir ritstörf og samfélagsrýni. Innan myndlistarinnar hefur sagnamaðurinn valið sér málverkið og teikninguna sem tjáningarform.

Þar segir hann sögur sem hafa persónulega skírskotun um leið og þær endurspegla tíðaranda eða, eins og í seinni tíð, eru viðbragð við atburðum veraldarsögunnar. Leitin að tjáningarmáta innan málverksins er leiðarstef og speglar hræringar innan listheimsins. Sá persónulegi stíll sem Hallgrímur hefur þróað á löngum ferli hefur jafnan verið fígúratífur en þó flakkað á milli raunsæis og fantasíu.

Hallgrímur Helgason er áttundi listamaðurinn sem valinn er til þátttöku í sýningaröð Listasafns Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum, þar sem farið er yfir feril lykilpersóna í íslensku listalífi. Hvert og eitt þeirra er valið með tilliti til einstaks framlags þeirra og sérhæfingar á sínu sviði, bæði hvað viðvíkur miðlum, aðferðum og viðfangsefnum. Slík stöðutaka á sér stað í framsetningu lykilverka frá ólíkum tímum í Vestursal Kjarvalsstaða og útgáfu sýningarskrár þar sem fjallað um ferilinn í samhengi listasögunnar og samtímans.

Ágústkvöld við Gróttu, 1983.

„Ég vil hafa litina lifandi, tefla á tæpasta vað, og aldrei vera of smekklegur. Málverk eiga helst að valda usla í rýminu, yfirtaka stofuna, raska jafnvæginu, rústa hjónabandinu!“

– Hallgrímur Helgason

Fallið fyrir henni, 1999.
Stríðsfórnarlömb – fórnarlamb nr.2 (Putin), 2024.

Hallgrímur Helgason er fæddur í Reykjavík 1959. Hann nam stuttlega við MHÍ og Listaakademíuna í München en hefur starfað og sýnt sem myndlistarmaður frá árinu 1983. Hann hefur haldið yfir 30 einkasýningar heima og erlendis og tekið þátt í yfir 40 samsýningum víða um lönd. Árin 1985-89 var hann búsettur í Boston og New York og árin 1990-96 bjó hann í París. Verk hans eru meðal annars í eigu Metropolitan Museum of Art, New York, FRAC Poitou-Charentes í Angouleme, Frakklandi, Listasafns Reykjavíkur, Listasafns Íslands, Listasafns Háskólans, Listasafns Kópavogs og Listasafns Ísafjarðar. Árið 2021 hlaut Hallgrímur heiðursorðu Frakka fyrir menningarstörf, Officier de l'ordre des arts et des lettres.

Ítarefni

Sýningarstjórar

Ólöf Kristín Sigurðardóttir og Aldís Snorradóttir

Kynningarmynd

Níföld sjálfsmynd (teiknaðir saman með tunglsgeilsum), 2023.

Fjölmiðlar

Fjölmiðlar (pdf)

Listamenn