Gullpensillinn

Gullpensillinn

Gullpensillinn

Kjarvalsstaðir

-

Samsýning á verkum íslenskra listmálara. Málverkið er dautt - eða hvað?“Málverk er gert úr þremur meginþáttum, sem við segjum að sé teiknun, mótun forma og litun.“Piero della Francesca, De Prospectiva Pigendi (c. 1480-90) Það kann að vera að hin tæknilega skilgreining málverksins sé einföld : að í því sé að finna samspil lína, forma og lita.

En þar með er ekki einu sinni hálf sagan sögð, því listamenn hafa í gegnum aldirnar galdrað undursamleg stórvirki úr þessum einfalda efniviði.

Málverk hafa markað framþróun menningarsamfélaga, og oft verið einn helsti vitnisburður um það besta og göfugasta, sem mannkynið hefur getið af sér. Hvernig má slíkt vera? Málverkið er í eðli sínu fölsun raunveruleikans, misgóð eftirmynd hans eða myndbirting á hugarórum, þar sem búin er til ímynd, sem oftar en ekki á sér enga stoð í efnisheiminum utan þess flatar, sem hún birtist á. Hvað er svona merkilegt við eftirmyndir, falsanir og hugaróra?

Um gildi málverksins hafa verið skrifaðar þykkar bækir á ýmsum tímum, bæði af þeim sem þykir mikil til þess koma, sem og þeim sem telja málverkið úrelt listform, en sú umræða fór vaxandi eftir því sem leið á 20. öldina. Vægi lofs og lasts hefur sveiflast til, þannig að jafnvel er hægt að gera könnun á listþróun á öldinni út frá því áliti sem málverkið hefur verið í á hverjum tíma.

Þeir sem mála telja sér það nauðsynlegt. Jackson Pollock sagði í viðtali skömmu fyrir dauða sinn árið 1956: _Að mála er að finna sjálfan sig. Allir góðir listmálarar mála það sem þeir eru.“Aðrir hafa látið sér fátt um finnast.

Marcel Duchamp, sem sjálfur hætti að mála 1918 en telst þrátt fyrir það einn merkasti myndlistarmaður 20. aldar, sagði einfaldlega að listmálarar sæktust eftir _vímu terpentínunnar.“ Jafnvel listmálararnir sjálfir eiga það til að efast; Francis Bacon, einn merkasti listamálari Breta á öldinni, lét hafa eftir sér í viðtali að listmálun væri _viðfangsefni gamalmennis.“

Á Íslandi átti málverkið miklu fylgi að fagna mestalla 20. öldina, og í raun má segja að myndlist þjóðarinnar hafi verið skilgreind út frá því. Upphafið var í málverkinu (hjá Þórarni B. Þorlákssyni), og framhaldið ekki síður (hjá Ásgrími Jónssyni, Jóni Stefánssyni og Jóhannesi S. Kjarval). Næstu kynslóðir myndlistamanna voru upp til hópa skipaðar listmálurum, þó nokkrir myndhöggvarar kæmu einnig til sögunnar, og gegndu að sjálfsögðu ákveðnu hlutverki í þróun listarinnar.

Málverkið var þó ótvírætt hinn drottnandi miðill myndlistarinnar hér á landi langt fram á síðari hluta aldarinnar. Jafnvel þegar alþjóðlegur módernismi í myndlist skaut loks rótum á Íslandi á sjötta áratugnum og umbylti listalífinu var það fyrst og fremst fyrir tilstilli afstrakt-málverksins, sem síðan réð ríkjum í myndlistinni um langa hríð. Með næstu byltingu í myndlistinni hér á landi á síðari hluta sjöunda áratugarins spruttu fram ný viðhorf.

Með nýju fólki kom nýr tjáningarmáti, ný framsetning og nýtt athafnafrelsi, sem listafólk notfærði sér til hins ítrasta. Hugmyndalist, Flúxus, Arte Povera - listastefnurnar voru af ýmsu tagi. Gjörningar, innsetningar, uppákomur, _tilbúin verk“ (ready-mades), líkamslist, landlist, höggmyndir - hin listræna sýn var tjáð með fjölbreyttari hætti en nokkru sinni fyrr. Málverkið var ekki meðal þeirra miðla sem nutu velgengni í myndlistinni á þessum tíma. Þvert á móti var það nefnt sem dæmi hins hefðbundna og úrelta, og á ýmsan hátt gert að skotspón hinna nýju listhreyfinga. Ítrekað mátti heyra eftirfarandi haldið fram á áttunda áratugnum, oft af miklum ákafa: _Málverkið er dautt!“ -

Þessi fullyrðing hefur ómað reglulega æ síðan, sett fram af ólíkum aðilum af ólíkum tilefnum. Það er vert að hafa í huga að listaskólar endurspegla helst það sem er að gerjast í listinni í eigin samtíma. Því er eðlilegt að ætla að frá þessum tíma hafi nám í slíkum skólum markast mjög af nýjum anda, sem var andsnúinn málverkinu, og hélt fram nýjum miðlum í þess stað. Slík þróun er eðlileg og raunar nauðsynleg. Kóngurinn er dauður, lengi lifi kóngurinn - hin eilífa hringrás er forsenda nauðsynlegrar endurnýjunar, líka innan listaskólanna.

Það er einkenni hins nýja á hverjum tíma að hafna því sem fyrir er, og á þessum árum hlaut málverkið því að verða fyrir þeirri uppreisn sem eðlileg var. Ástæðan er í raun tvíþætt - og klofin: Annars vegar einlæg trú á nýjum miðlum, sem viðkomandi taldi að gæti komið alfarið í stað málverksins - og hins vegar óljós grunur um að málverkið ætti eftir að halda velli þrátt fyrir alla andstöðu, og því væri eins gott að kveða hraustlega að. Þegar litið er aftur til síðustu þriggja áratuga 20. aldarinnar kemur í ljós að sá grunur hefur einmitt reynst réttur.

Þrátt fyrir mótlætið sem málverkið varð fyrir var ætíð ljóst að það mundi halda velli sem virkur miðill í myndlistinni. Málverkið er einfaldlega of sterkur listmiðill til að hverfa, þar sem það myndar _brú á milli hugsunar listmálarans og áhorfandans,“[4] svo vitnað sé til orða Eugéne Delacroix. Á áttunda áratugnum blómstraði málverkið af nýjum krafti fyrir tilstilli hóps af yngri kynslóð listamanna (Gunnars Arnar Gunnarssonar, Einars Hákonarsonar, Magnúsar Kjartanssonar, Sigurðar Örlygssonar o.fl.), auk þess sem eldri listamenn héldu tryggð við miðilinn og þróuðu áfram verk sín á þessum vettvangi.

Með hinu svonefnda _nýja málverki“ kom fram enn nýr hópur listmálara í upphafi níunda áratugarins. Meðal þeirra má telja ýmsa sem hafa verið í framvarðasveit málverksins alla tíð síðan, t.d. Helga Þorgils Friðjónsson, Daða Guðbjörnsson, Jón Axel Björnsson og Jón Óskar Hafsteinsson. Á síðasta áratug aldarinnar bættust enn fleiri í hóp listmálara, þrátt fyrir að andstreymið hafi áfram verið til staðar. Hin eilífa hringrás hefur gert málverkið að marktækum miðli í myndlistinni á ný, en ef til vill á forsendum og með tjáningarhætti, sem hefði komið listmálurum á óvart fyrir nokkrum áratugum síðan. Málverkið er því alls ekki dautt - eða hvað?

Nú er kominn á vettvang hópur listmálara, sem kallar sig því litríka nafni _Gullni pensillinn“, og fyrsta samsýning þeirra fer nú fram í Listasafni Reykjavíkur - Kjarvalsstöðum. Þessi hópur er um sumt frábrugðinn fyrri flokkum listmálara, en skyldleikinn er ljósari á öðrum sviðum. Hópinn skipa 14 listamenn; þetta eru þau Birgir Snæbjörn Birgisson, Daði Guðbjörnsson, Eggert Pétursson, Georg Guðni Hauksson, Hallgrímur Helgason, Helgi Þorgils Friðjónsson, Inga Þórey Jóhannsdóttir, Jóhann L. Torfason, Jón Bergmann Kjartansson, Kristín Gunnlaugsdóttir, Sigríður Ólafsdóttir, Sigurður Árni Sigurðsson, Sigtryggur Bjarni Baldvinsson og Þorri Hringsson.

Allt er þetta listafólk börn lýðveldisins, en aldursforsetinn á enn þrjú ár í fimmtugt (f. 1953) en hin yngstu eru jafnaldrar íslenska sjónvarpsins (f. 1966). Því má gera ráð fyrir að einstaklingar í þessum hóp eigi eftir að vera virkir þátttakendur á listavettvangi langt inn á 21. öldina. Allir þessir listamenn stunduðu sitt listnám á tímum þegar hugmyndalistin og fjölbreytni miðla í myndlistinni var í öndvegi námskrárinnar við flesta listaskóla í Evrópu. Engu að síður tjá þau sig nú fyrst og fremst í málverkinu, og einkum í myndmáli sem byggir á hlutveruleikanum í einu eða öðru formi - algjörlega andstætt því sem vænta mætti miðað við það nám sem að baki býr.

Málverkið er því alls ekki dautt, og má raunar líta á endurnýjaðan kraft þess og sköpunarmátt í upphafi 21. aldarinnar sem ákveðna en eðlilega uppreisn gagnvart þeirri myndlist sem hæst hefur borið síðustu áratugi. Þessi síðasta umbylting í listinni hefur hins vegar farið hljótt, og henni hafa ekki fylgt neinar stórar yfirlýsingar. Þær verða ekki skrifaðar hér - það er verkefni síðari tíma. Nú er vert að njóta málverksins eins og það kemur fyrir frá hendi meðlima _Gullna pensilsins“, og minnast orða Jackson Pollock: _Að mála er að vera til.“[5] Eiríkur Þorláksson..