
Hafnarhús
-
D salur
Í verkum sínum skoðar Elsa sérstaklega tilfærslu forms í skilning, nokkurs konar formfræði tungumálsins.
Hún þróar tákn sem hún umbreytir til þess að kalla fram nýja merkingu tengda viðfangsefnum sínum. Á einn bóginn getur formfræði hins skrifaða orðið að sérstæðu myndrænu tungumáli. Á þessari sýningu er áherslan hins vegar á það hvernig hljóð og hlustun verða að innsetningu sem höfðar til skilningarvitanna.
Skúlptúrar, hljóðmynd og innsetning ljósa í D-sal í Hafnarhúsinu bjóða upp á margþættan lestur. Við fyrstu sýn má greina gamansemi; form, hljóð og dularfull lýsing mynda líflegt samspil. Við nánari athugun, þegar við leyfum okkur að leggja raunverulega við hlustir, vakna róttækari fagurfræðilegar spurningar: Getur mannleg skynjun verið tjáð í gegnum form? Er athygli virkt ferli sköpunar? Hugurinn blómstrar þegar hlustun verður sjón. Hlustun er athygli. Að hlusta er skilningur. Að hlusta er ást.
Í verkum sínum leggur Elsa stund á formfræði tungumálsins, letur, orð og tilvísanir. Hún rannsakar lestur í sínum víðasta skilningi og færir hugrenningar sínar í tákn, form og stafi. Á síðustu árum hefur hún fært sig úr tvívíðum verkum í almannarými yfir í þrívíðan skúlptúr. Elsa hefur lengi starfað innan myndlistatvíeykisins Krot & Krass, en hafa þau unnið ótal veggverk bæði hér heima og erlendis. Elsa hefur tekið þátt í rekstri fjölmargra listamannarýma í Reykjavíkurborg og þar má sérstaklega nefna Fúsk í Gufunesi.
Sýningaröðin í D-sal hóf göngu sína árið 2007. Hér er listamönnum sem hafa mótandi áhrif á íslenska myndlistarsenu boðið að halda sína fyrstu einkasýningu í opinberu safni.


Sýningarstjóri
Zsóka Leposa
Fjölmiðlaumfjöllun (pdf)
Listamenn