Ásmundur Sveins­son: Undra­land

Ásmundur Sveinsson: Undraland

Ásmundarsafn

-

Á sýningunni hverfum við aftur í tímann og inn á vinnustofu Ásmundar.

Myndhöggvarinn Ásmundur Sveinsson vann verk sín í ólík efni Hann skar út í tré, hjó í stein, mótaði í leir, yfirfærði í steinsteypu auk þess sem hann vann með járn og fundið efni. Mörg hans þekktustu verk eru uppstækkuð og úti undir berum himni víða um borgina. Verk hans urðu til í þrotlausri tilraunamennsku á vinnustofunni þar sem efni, inntak og rými kölluðust á. Þau eru ýmist hlutbundin eða abstrakt og fór Ásmundur í gegnum ýmis ólík tímabil í listsköpun sinni. Á sýningunni hverfum við aftur í tímann og inn á vinnustofu Ásmundar. Við fáum tilfinningu fyrir því sem gerðist á bakvið tjöldin í leit listamannsins að útfærslu sem hentaði hverju sinni fyrir þær hugmyndir sem spruttu fram.

Undraland var heitið á næsta bóndabæ við þann stað í Laugardal þar sem Ásmundur byggði vinnustofu sína, „kúluhúsið“ við Sigtún. Hann bjó hér ásamt fjölskyldu sinni, byggði við og þróaði einstaka aðstöðu til listsköpunar. Húsið var endurbyggt að hluta og opnað sem listasafn og höggmyndagarður eftir andlát Ásmundar fyrir rúmum 40 árum. Markmið Listasafns Reykjavíkur þennan tíma hefur verið að sýna verk hans í allri sinni fjölbreytni og veita yngri kynslóð listamanna vettvang til að sýna eigin verk í samhengi við þá arfleifð.

Ásmundur Sveinsson (1893–1982) var einn af frumkvöðlum íslenskrar höggmyndalistar. Hann stundaði nám við Sænsku listakademíuna í Stokkhólmi, dvaldist nokkur ár í París og ferðaðist um Grikkland og Ítalíu. Ásmundur hélt alla tíð tryggð við þá afstöðu að listin ætti erindi til fólksins og ætti heima á meðal þess. Hann var kallaður alþýðuskáldið í myndlist og án efa á sú hugsjón rætur að rekja til lífsafstöðu hans ekki síður en höggmyndahefðarinnar.

Myndir frá opnun

Ítarefni

Sýningarstjóri

Ólöf Kristín Sigurðardóttir

Fjölmiðlaumfjöllun

Listamenn