Kjarvalsstaðir
-
Sýningin stendur yfir frá 1. feb. – 12.
okt. 2014. Því hefur verið haldið fram að í gegnum augu Kjarvals hafi Íslendingar lært að sjá land sitt upp á nýtt. Það land sem augu hans námu og birtist okkur á dúkum hans er úfið og stórbrotið land grýttra fjalla, hrauns og mosa. Hver árstíð glæðir landið nýju lífi og hvert ský endurkastar nýjum lit.
Síbreytilegt land andstæðna þar sem mörkin milli hins séða og hins skynjaða eru óljós, steinarnir hafa andlit og vættir búa í hverjum kletti.
Landið og sagan renna saman og verða eitt. Haustið 2013 var sett upp sýning á verkum Kjarvals í Þjóðarsafninu í Pétursborg með það að leiðarsljósi að draga fram þennan kjarna í verkum hans. Þar voru verk sem sýna túlkun hans á hraunbreiðum og fjallalandslagi Íslands og hvernig þetta landslag birtist honum að sumri og vetrarlagi. Einnig verk þar sem hann tvinnar saman landslag og vætti í dularfulla og margræða heild.
Sýningunni var vel tekið og því ákveðið að setja hana upp á Kjarvalsstöðum með vissum breytingum undir yfirskriftinni Árstíðirnar í verkum Kjarvals. Sýningin var sýnd í Pétursborg í Rússlandi að hluta..