Hafnarhús
13. apríl 2025, 14:00 til 16:00
Komdu á Leikvallasmiðju með ÞYKJÓ í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi, á Barnamenningarhátíð!
Á Leikvallasmiðju er hægt að prófa stórhuga hugmyndir í fjölbreyttan efnivið með aðstoð hönnuða frá ÞYKJÓ. Smiðjan tengist verkefninu „Börnin að borðinu“ sem hlaut Hönnunarverðalun Íslands í flokknum Verk ársins 2024.
Smiðjan er ætluð börnum frá 4 ára aldri í fylgd fullorðinna, aðgangur er ókeypis og öllum opinn.
ÞYKJÓ er þverfaglegt teymi hönnuða sem vinna fyrir börn og fjölskyldur þeirra á sviði upplifunarhönnunar, innsetninga og vöruhönnunar. Hönnunarstarf þeirra miðar að því að örva ímyndunarafl og sköpunarkraft barna í samstarfi við mennta- og menningarstofnanir. Á meðal nýlegra verkefna er innsetningin Hljóðhimnar í Hörpu, húsgagnalínurnar Kyrrðarrými og Hreiður og þátttökuverkefnið Gullplatan: Sendum tónlist út í geim! ÞYKJÓ hlaut Hönnunarverðlaunin árið 2024 og var einnig tilnefnt til sömu verðlauna 2021 og 2022. Eins hlaut teymið tilnefningu til alþjóðlegu YAM verðlaunanna.