
Ásmundarsafn
til
Verið velkomin á teikniæfingu með Söru Riel. Á æfingunni leiðir Sara gesti inn í ferli sjálfvirkra teikninga. Sara veitir gestum létt fyrirmæli og leiðbeiningar og varpar jafnframt sinni eigin teikningu upp á vegg með myndvarpa, á meðan tónlist fyllir rýmið og styður flæðið. Allt efni verður á staðnum.
Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir yngri en 18 ára, árskortshafa og menningarkortshafa.
Teikniæfingarnar byggja á aðferð sem liggur til grundvallar vinnuferlis Söru. Þar vinnur hún með sjálfsprottna teikningu sem leið til að birta og raða innri óróleika. Aðferðin felur oft í sér að koma sér í skapandi ástand – til dæmis eftir göngu í náttúrunni eða sundferð – og leyfa teikningunni að verða farvegur fyrir tilfinningar, heilabylgjur og hugrenningar. Teikningarnar verða síðar grunnur að skúlptúrum og innsetningum þar sem mótífin eru mótuð í leir, steypt í steinsteypu og teikningar grafnar í gler til að varpa skuggum á veggi.
Sara Riel er fimmti listamaðurinn með verk í vinnslu í Ásmundarsafni en þar er nú listamönnum boðin aðstaða í húsinu til þess að vinna að eigin verkum í vinnslu eða hvers konar ferli. Í Ásmundarsafni mun Sara vinna með innra landslag manneskjunnar – tilfinningar, heilabylgjur og taugaboð – og skoða með hvaða hætti við mætum þeim og vinnum úr. Hvernig taka þær á sig mynd og verða hluti af sameiginlegri reynslu?