Yfir bjart­sýn­is­brúna

Yfir bjartsýnisbrúna

Yfir bjartsýnisbrúna

Hafnarhús

-

Sýningarverkefni í samvinnu við Safnasafnið á Svalbarðaströnd, þar sem rannsökuð eru tengsl íslenskrar samtímalistar og þeirrar alþýðulistar, sem hefur þrifist með þjóðinni. Sennilega hefur aldrei verið jafn mikil spenna á myndlistarsviðinu og á 20. öld.

Líkt og á nær öllum öðrum sviðum vestrænnar menningar var fjölbreytni og ósamlyndi regla tíðarandans á kostnað jafnvægis og kyrrðar. Myndlistin var kynnt undir sífellt nýjum heitum, og listinn yfir liststíla og hreyfingar, sem sífellt voru að sundrast eða sameinast, er nær ótæmandi.

Ein er sú aðgreining í listunum, sem ekki tókst að brúa á nýliðinni öld. Þetta er gjáin milli þeirra sem hafa lagt stund á formlegt listnám og hinna, sem ekkert slíkt nám hafa að baki. Það hefur ekki reynst auðvelt að skilgreina muninn: hinir fyrri hafa verið nefndir lærðir listamenn, menntaðir, akademískir, „alvöru“, á meðan hinir síðarnefndu hafa kallast leiknir, næfir, einfarar í listinni, utangarðs-, frístunda- eða alþýðulistamenn.

Almennt hefur verið litið á verk þeirra sem fylla fyrri hópinn af virðingu, og þau gagnrýnd á grundvelli faglegs mats og listræns samhengis; verk hinna síðarnefndu hafa fremur vakið forvitni en oft og tíðum einnig aðdáun, og þá án tilvísunar til hefðbundinnar fagurfræði. Það hefur verið heldur fátítt að listafólk úr síðari hópnum hafi verið talið í hóp hinna útvöldu „alvöru“listamanna, en um leið eru þess fjölmörg dæmi að verk þeirra hafi verið dásömuð í hástert, jafnt af listunnendum sem öðrum listamönnum.

Sýningin „Yfir bjartsýnisbrúna“ er tilraun til að eyða þessari aðgreiningu – eða hið minnsta setja stórt spurningarmerki við réttmæti hennar.

Markmiðið er að brúa það bil sem hefur verið talið á milli lærðrar og sjálfsprottinnar listar, og sýna verk lærðra og leikra listamanna hlið við hlið sem jafningja – sem verk listafólks, sem hefur sitthvað fram að færa.

Listasafn Reykjavíkur og Safnasafnið á Svalbarðsströnd við Eyjafjörð hafa tekið höndum saman við þetta verkefni, sem vonandi verður til þess að opna augu listunnenda enn og aftur fyrir því að það sem skiptir máli í myndlist eru þau listaverk, sem ná að snerta við þeim, fremur en bakgrunnur þeirra einstaklinga sem hafa skapað þau..

Myndir af sýningu