Ásmundarsafn
-
Með reglulegu millibili hefur hópur sérsinna listamanna komið saman til sýninga á vatnslitamyndum. Samsetning þessa hóps er aldrei sú sama frá ári til árs, enda er markmiðið mikilvægara en hópeflið, nefnilega að halda á lofti merki vatnslitanna, sennilega elstu listgrein mannkyns að undanskildu steinhöggi. Þó er ekki á neinn hallað þótt sérstaklega sé minnst á þátt þeirra Daða Guðbjörnssonar, Eiríks Smith og Hafsteins Austmann í þessu reglulega sýningarhaldi.
Enda rennur þeim blóðið til skyldunnar, því í seinni tíð hafa fáir íslenskir listamenn lagt eins mikið af mörkum til vatnslitanna.
Í áðurnefndu markmiði er ekki fólgin nein hreinstefna. Þótt einhverjir trúi því enn að akvarellan, máluð af vatninu og listamanninum til hálfs, sé hið eina og sanna sakrament, þá segir listasagan aðra sögu. Þegar mikið lá við gripu helstu meistarar hinna hreinu akvarellu til óhefðbundinna aðferða, mögnuðu upp hvítan pappírinn með gvasslitum eða rispuðu hann og ýfðu með hnífsoddi í leit að birtu. Á þessum vettvangi þurfa listamenn því ekki að sanna að þeir séu færir um að vinna sig í átt til ljóssins undanbragðalaust, þeim er einungis uppálagt að halda trúnað við vatn og náttúruleg steinefni.
Á þessari sýningu er því að finna vatnsliti á striga, gvassliti á pappír, vatnsliti með ísaumi og svo auðvitað verk þar sem tær vatnslitur og enn tærari pappír verða eitt. Myndefni eru jafn fjölbreytt og listamennirnir eru margir: náttúruupplifanir, mannlífsmyndir, hugmyndafræðilegar pælingar, hreinar og klárar fantasíur, jafnvel útlistanir sem hingað til hafa ekki sést nema í ritum um læknisfræði.
Óhætt er að segja að þessi verk séu upplýsandi á annan máta en öll önnur listaverk sem við þekkjum.
Það er við hæfi að nefna þessa sýningu í höfuðið á einu þekktasta og jafnframt umdeildasta verki Ásmundar Sveinsonar..
Umfjöllun fjölmiðla PDF
Sýningarskrá
Sýningarstjóri/-ar
Aðalsteinn Ingólfsson
Umfjöllun fjölmiðla
Listamenn
Boðskort
Sýningarskrá JPG