Undraland: Sara Riel með verk í vinnslu

Svarthvít mynd Sara Riel í Ásmundarsafni

Undraland: Sara Riel með verk í vinnslu

Ásmundarsafn

-

Náttúran birtist í verkum Söru með ýmsum hætti og þá liggja til grundvallar tengsl manns og umhverfis.

Með hvaða hætti hendum við reiður á náttúrunni, flokkum, skilgreinum og gerum til hennar tilkall?

Viðfangsefni Söru Riel eru flóra, fána, veðurfar og jafnvel himingeimurinn. Hún notar einstaka handverksfærni sýna og útsjónarsemi til að skapa grípandi, sjónræna túlkun á aðkallandi málefnum. Snemma veturs 2024 leit dagsins ljós nýtt útilistaverk eftir Söru í undirgöngum við Öskjuhlíð nærri Veðurstofunni. Þar vann hún út frá hugmyndum um veðrið, bæði með myndrænum hætti en líka út frá því hvernig veður birtist í tungumáli og sögu. Þekkt eru verk hennar á húsgöflum í Æsufelli (Fjöður), á Skúlagötu (Glitur) og víðar. Bæði eiga það sammerkt að sækja í myndheim náttúrunnar, fugla og sjávardýr, en í meðhöndlun Söru verða til ný fyrirbæri sem vekja undrun og athygli.

Undraland er verkefni tileinkað sögu Ásmundarsafns. Þar var heimili og vinnustofa Ásmundar Sveinssonar myndhöggvara (1893-1982) sem hann hannaði sjálfur og byggði á árunum 1942-1950. Lóðin var í túnfæti bæjar sem hét Undraland. Ásmundur ánafnaði Reykjavíkurborg húsið og verk sín eftir sinn dag og var þar stofnað safn helgað minningu hans árið 1983. Þá fjóra áratugi sem listamaðurinn starfaði í húsinu var það vettvangur frjórrar listsköpunar. Yfir allt árið 2025 er listamönnum boðin aðstaða í húsinu til þess að vinna að eigin verkum í vinnslu eða hvers konar ferli.

Sara Riel (1980) nam myndlist við Listaháskóla Íslands og Weißensee-listaháskólann í Berlín þaðam sem hún brautskráðist árið 2006. Hún er kunn fyrir veggverk í almannarými en um leið á hún verk víða í söfnum og hefur sýnt um víðan völl.

Sara Riel með verk í vinnslu í Ásmundarsafni

Sýningarstjóri

Markús Þór Andrésson

Listamenn