
Ásmundarsafn
-
Finnur Arnar Arnarson vinnur oftar en ekki með samband manns og umhverfis í verkum sínum.
Hugmyndum sínum finnur hann form í margskonar miðlum, s.s. skúlptúr, innsetningum og ljósmyndum.
Finnur Arnar stundaði nám, fyrst í skúlptúrdeild en síðan í fjöltæknideild Myndlista og handíðaskóla Íslands og útskrifaðist þaðan árið 1991. Hefur samhliða myndlist sinni hannað leikmyndir fyrir leikhús, sýningar fyrir söfn og stofnanir ásamt því að kenna myndlist. Var listrænn stjórnandi og rak Menningarhúsið Skúrinn á árunum 2012 - 2014. Verk Finns Arnar eru allajafna á mörkum náttúru, mennsku og menningar - þau eru hugleiðingar um smæð mannsins gagnvart stærri og sterkari öflum og hvernig sú staðreynd breytir skynjun okkar á eigin tilveru
Undraland er verkefni tileinkað sögu Ásmundarsafns. Þar var heimili og vinnustofa Ásmundar Sveinssonar myndhöggvara (1893-1982) sem hann hannaði sjálfur og byggði á árunum 1942-1950. Lóðin var í túnfæti bæjar sem hét Undraland. Ásmundur ánafnaði Reykjavíkurborg húsið og verk sín eftir sinn dag og var þar stofnað safn helgað minningu hans árið 1983. Þá fjóra áratugi sem listamaðurinn starfaði í húsinu var það vettvangur frjórrar listsköpunar. Yfir allt árið 2025 hefur listamönnum verið boðin aðstaða í húsinu til þess að vinna að eigin verkum í vinnslu eða hvers konar ferli og árið 2026 ríður Finnur Arnar á vaðið sem sjötti listamaðurinn með verk í vinnslu í Ásmundarsafn.
„Ég bý í tjaldi inni í safninu, daga og nætur, dálítið eins og dýr. Uppi í kúlunni er ég svo að mála „dome“, svona kirkjuloft eins og er í gömlum dómkirkjum.
Verkið heitir Dómur og fjallar um það að vera þetta karldýr en líka það að vera dæmdur til að vera myndlistarmaður.
,,Ég er enginn Michelangelo og ekki málari en það var hann reyndar ekki heldur, þannig að minn dómur verður engin freska heldur meira svona blönduð tækni. Kirkjan lét mála kirkjuloft til að segja fólki hvernig það ætti að haga sér og hvernig þeim yrði refsað ef þau hlýddi ekki. Fæstir kunnu að lesa á þeim tíma og þess vegna var gripið til myndmálsins."
Finnur Arnar Arnarsson, myndlistarmaður


Listamenn