
Ásmundarsafn
-
Amanda hefur meðfram myndlist unnið við leikmyndahönnun í kvikmyndum.
Sá heimur hefur haft áhrif á listsköpun hennar, einkum hugmyndir um mörk raunveruleika og sviðsetningar, sannleika og fölsunar.
Þá hefur Amanda sótt innblástur í rannsóknir og tilgátur um eðli sjónskyns, allt sem mannsaugað greinir en um leið hvað fellur utan sjónsviðs okkar. Undanfarið hefur Amanda meðal annars tileinkað sér nýjar rannsóknir sem eiga sér stað í Japan á sviði gervigreindar. Henni er hugleikið með hvaða hætti skynjun hefur áhrif á framgang þekkingar, hvernig ómótuð vitund tekur inn upplýsingar sér til framdráttar á öðrum og óræðari forsendum en vitsmunalegum.
Undraland er verkefni tileinkað sögu Ásmundarsafns. Þar var heimili og vinnustofa Ásmundar Sveinssonar myndhöggvara (1893-1982) sem hann hannaði sjálfur og byggði á árunum 1942-1950. Lóðin var í túnfæti bæjar sem hét Undraland. Ásmundur ánafnaði Reykjavíkurborg húsið og verk sín eftir sinn dag og var þar stofnað safn helgað minningu hans árið 1983. Þá fjóra áratugi sem listamaðurinn starfaði í húsinu var það vettvangur frjórrar listsköpunar. Yfir allt árið 2025 er listamönnum boðin aðstaða í húsinu til þess að vinna að eigin verkum í vinnslu eða hvers konar ferli.
Amanda Riffo (1977) er frönsk-sílesk myndlistarkona sem hefur verið búsett í Reykjavík frá árinu 2012. Hún útskrifaðist frá École nationale supérieure des beaux-arts árið 2002 með MA-gráðu í myndlist. Amanda hlaut verðlaunin myndlistarmaður ársins 2024 fyrir sýninguna House of Purkinje í Nýlistasafninu.