Hafnarhús
-
Á sýningunni er úrval verka sem sýna ólíkar leiðir listamanna að því að kanna hvað felst í því að vera mannlegur. Í verkunum er staldrað við líkamlega og sálfræðilega eiginleika, viðburði og aðstæður sem segja má að séu grundvallarþættir tilverunnar. Sýningin er þriðja skissan að íslenskri samtímalistasögu sem byggist á verkum úr safneign Listasafns Reykjavíkur.
Hugmyndin er að safnið haldi áfram að velja verk úr safneigninni og setja í samhengi tilraunar til að skrifa listasöguna jafnóðum. Við innkaup listaverka í safnið á sér stað visst val sem endurspeglar fjölbreytileika listsköpunar hverju sinni en hér er reynt að greina enn frekar þær sameiginlegu áherslur sem er að finna í deiglu samtímans. Hvað einkennir íslenska myndlist á 21. öld? Hver eru viðfangsefni listamanna, aðferðir, efni og áskoranir?
Á sýningunni má meðal annars sjá verk eftir Önnu Hallin, Ástu Ólafsdóttur, Björk Guðnadóttur, Gjörningaklúbbinn, Helga Þorgils Friðjónsson, Huldu Vilhjálmsdóttur, Kristleif Björnsson og fleiri..