Kjarvalsstaðir
-
Steinunn Sigurðardóttir hefur með tímalausri hönnun sinni og næmum fagskilningi öðlast sérstöðu meðal fatahönnuða á heimsvísu. Listsköpun hennar byggir á áralöngu samstarfi við marga nafntogaða samtímahönnuði og fágætri þekkingu á meðferð efnis og þrívíðri mótun. Með rætur í þjóðlegum hefðum prjónalistarinnar hefur hún mótað sinn blæbrigðaríka heim sem minnir á harðgerða en jafnframt viðkvæma náttúru landsins.
Í hönnun sinni vefur Steinunn þjóðararfinum saman við dulúðuga skugga hraunsins, hvítfyssandi vatnsföll, mjúkan mosann, mildan jarðveginn og kraumandi kvikuna.
Uppspretta sem knúið hefur íslenska listamenn til dáða á sviði myndlistar, tónlistar, ljóðlistar, skáldskapar, kvikmynda og ljósmyndunar frá ómunatíð. Hróður Steinunnar nær langt út fyrir landsteinanna með verðlaunum og viðurkenningum sem henni hafa hlotnast. Skemmst er að minnast hinna virtu Söderbergsverðlauna sem hún hlaut fyrst allra fatahönnuða árið 2008 og fylgt var úr hlaði með glæsilegri sýningu í Gautaborg.
Á sýningunni er lögð áhersla á frumeintök sem ekki eru ætluð í fjöldaframleiðslu auk fágætra ljósmynda eftir Mary Ellen Mark. Steinunn Sigurðardóttir er borgarlistarmaður Reykjavíkur og er fyrsti hönnuðurinn sem hlýtur þá nafnbót. Sýningin er gerð með stuðningi Icelandair.
Stílisti: Kristín Björgvinsdóttir. Sýningarhönnuður er Páll Hjaltason.
Í tengslum við sýninguna er sett up fjölskylduvæn og fræðandi listsmiðja í Norðursal, "Stein-smiðja," þar sem áferð efnis er í aðalhlutverki ásamt möguleikum til að tjá sig í gegnum skissuaðferðir fatahönnuða..
Umfjöllun fjölmiðla PDF
Sýningarstjóri/-ar
Soffía Karlsdóttir
Umfjöllun fjölmiðla
Listamenn
Boðskort