Hafnarhús
-
Innsetning Steingríms Eyfjörð sem var framlag Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 2007. Steingrímur Eyfjörð (f. 1954) hefur í verkum sínum tekist á við fjölbreytt viðfangsefni úr menningu samtímans og íslenskri þjóðmenningu.
Hann hefur beint sjónum að samhengi fortíðar og nútíðar, kafað í menningararfleið Íslendinga og sýn samtímans á hana með margræðum og oft gagnrýnum vísunum.
Steingrímur vinnur þrívíð verk og ljósmyndir en einnig hafa teikningar og texti verið fyrirferðarmikil í list hans. Notkun hans á texta vísar til myndrænnar textanotkunar Flúxuslistamanna en einnig hefur hann notað beinar tilvitnanir í bókmenntaarfinn. Fjöldi verka hans byggir á samstarfi við aðra listamenn og fjölbreyttan hóp einstaklinga með sérhæfða þekkingu og áhugasvið.
Steingrímur hefur verið þátttakandi í íslensku listalífi frá því um miðjan áttunda áratuginn. Hann nam myndlist við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1971 – 1975 og árið 1978. Eftir námsdvöl í Edinborg og síðan Helsinki hélt hann til Hollands þar sem hann stundaði framhaldsnám 1980 – 1983 við Jan Van Eyck listaháskólann í Maastricht.
Steingrímur á að baki meira en fjóra tugi einkasýninga og hefur tekið þátt í fjölda samsýninga á Íslandi sem og alþjóðlega.
Árið 2006 var haldin viðamikil yfirlitssýning á verkum hans á Listasafni Íslands og árið 2007 var hann fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum á Ítalíu, sem er einn mesti listviðburður heims. Sýningin sem nú stendur í Listasafni Reykjavíkur - Hafnarhúsi var fyrst sett upp í Feneyjum þar sem hún stóð yfir frá júní til nóvember 2007..
Umfjöllun fjölmiðla PDF
Sýningarskrá
Umfjöllun fjölmiðla
Listamenn
Boðskort
Sýningarskrá JPG