Steina Vasulka: Tímaflakk

Svarthvít mynd af Stenu að spila á fiðlu.

Steina Vasulka: Tímaflakk

Hafnarhús

-

Steina er einn helsti frumkvöðull vídeólistar og nýmiðlunar í heiminum og brautryðjandi og áhrifamanneskja á sviði samtímalistar hérlendis.

Sýningin er fyrsta stóra yfirlitssýningin á verkum Steinu hér á landi. Með verkum sínum hefur hún tengt saman vídeólist, tónlist og tækni á einstaklega skapandi og frjóan hátt. Sýningin var upphaflega skipulögð í Bandaríkjunum undir heitinu Playback og sett þar upp á tveimur söfnum árið 2024 en hér á landi verður hún viðameiri að umfangi og inntaki. Rakinn verður listrænn ferill Steinu frá upphafi til samtímans og birtir sýningin í heild því afar áhugaverða mynd af þróun tækni og listar á síðustu áratugum.

Steina (fædd Steinunn Briem Bjarnadóttir, 1940) lærði fiðluleik í Reykjavík og Prag, og flutti til New York árið 1965 með eiginmanni sínum, Woody Vasulka. Í lok sjöunda áratugarins hóf hún að einbeita sér að myndbandsverkum og stofnaði árið 1971 The Electronic Kitchen (síðar The Kitchen), sem var goðsagnakenndur sýningar- og samkomustaður fyrir hljóð- og myndbandslistamenn í New York. Hún flutti til Buffalo árið 1973 þar sem hún þróaði vinnu sína að myndlist og tæknirannsóknum enn frekar. Frá árinu 1980 hefur hún búið í Santa Fe í Nýju-Mexíkó, sýnt reglulega víða um heim og eru mörg verka hennar talin til lykilverka í sögu vídeólistar.

Listasafn Íslands og Listasafn Reykjavíkur munu sameiginlega standa að sýningunni sem verður opnuð 4. október 2025 og lýkur 11. janúar 2026. Hún fer fram í fjórum sýningarsölum Listasafns Íslands við Fríkirkjuveg og fjórum sölum Listasafns Reykjavíkur – Hafnarhúsi við Tryggvagötu. Sýningin er skipulögð af MIT List Visual Arts Center í samvinnu við Buffalo AKG-listasafnið. Sýningarstjórar eru Natalie Bell, MIT List Visual Arts Center, og Helga Christoffersen, Buffalo AKG-listasafninu. Hérlendis stýra verkefninu Markús Þór Andrésson og Pari Stave.

Steina Violin Power I, 1970–1978 Myndband, 10,04 mín. Birt með leyfi listamannsins, BERG Contemporary og Vasulka Foundation.
Steina, Lava and Moss, 2000, Vídeó-innsetning. Frá sýningunni Eilíf endurkoma á Kjarvalsstöðum 2021.

Ítarefni

Sýningarstjórar

Natalie Bell, MIT List Visual Arts Center, og Helga Christoffersen, Buffalo AKG-listasafninu. Hérlendis stýra verkefninu Markús Þór Andrésson og Pari Stave.

Fjölmiðlaumfjöllun (pdf)

Fjölmiðlar

Listamenn