
Hafnarhús
-
Steina er einn helsti frumkvöðull vídeólistar og nýmiðlunar í heiminum og brautryðjandi og áhrifamanneskja á sviði samtímalistar hérlendis.
Sýningin er fyrsta stóra yfirlitssýningin á verkum Steinu hér á landi. Með verkum sínum hefur hún tengt saman vídeólist, tónlist og tækni á einstaklega skapandi og frjóan hátt. Sýningin var upphaflega skipulögð í Bandaríkjunum undir heitinu Playback og sett þar upp á tveimur söfnum árið 2024 en hér á landi verður hún viðameiri að umfangi og inntaki. Rakinn verður listrænn ferill Steinu frá upphafi til samtímans og birtir sýningin í heild því afar áhugaverða mynd af þróun tækni og listar á síðustu áratugum.
Steina (fædd Steinunn Briem Bjarnadóttir, 1940) lærði fiðluleik í Reykjavík og Prag, og flutti til New York árið 1965 með eiginmanni sínum, Woody Vasulka. Í lok sjöunda áratugarins hóf hún að einbeita sér að myndbandsverkum og stofnaði árið 1971 The Electronic Kitchen (síðar The Kitchen), sem var goðsagnakenndur sýningar- og samkomustaður fyrir hljóð- og myndbandslistamenn í New York. Hún flutti til Buffalo árið 1973 þar sem hún þróaði vinnu sína að myndlist og tæknirannsóknum enn frekar. Frá árinu 1980 hefur hún búið í Santa Fe í Nýju-Mexíkó, sýnt reglulega víða um heim og eru mörg verka hennar talin til lykilverka í sögu vídeólistar.
Listasafn Íslands og Listasafn Reykjavíkur munu sameiginlega standa að sýningunni sem verður opnuð 4. október 2025 og lýkur 11. janúar 2026. Hún fer fram í fjórum sýningarsölum Listasafns Íslands við Fríkirkjuveg og fjórum sölum Listasafns Reykjavíkur – Hafnarhúsi við Tryggvagötu. Sýningin er skipulögð af MIT List Visual Arts Center í samvinnu við Buffalo AKG-listasafnið. Sýningarstjórar eru Natalie Bell, MIT List Visual Arts Center, og Helga Christoffersen, Buffalo AKG-listasafninu. Hérlendis stýra verkefninu Markús Þór Andrésson og Pari Stave.


Taktu þátt í tímaflakki Steinu!
Komdu í ævintýralegt ferðalag milli Listasafns Reykjavíkur og Listasafns Íslands um sýninguna Steina: Tímaflakk með aðstoð sérstaks þrautapassa.
Krökkum á öllum aldri er boðið að leysa skemmtilegar þrautir á báðum söfnum, safna stimplum og skila passanum inn til að komast í spennandi verðlaunapott. Dregið út reglulega yfir sýningartímann.
Öll börn sem koma á safnið fá passann frítt, hann má nálgast í móttöku safnanna.
Ertu tilbúin/n að taka þátt í tímaflakkinu?



Sýningarstjórar
Natalie Bell, MIT List Visual Arts Center, og Helga Christoffersen, Buffalo AKG-listasafninu. Hérlendis stýra verkefninu Markús Þór Andrésson og Pari Stave.
Fjölmiðlaumfjöllun (pdf)
Fjölmiðlar
Listamenn