Sirra Sigrún Sigurð­ar­dóttir og Ásmundur Sveins­son: Ef lýsa ætti myrkva

Sirra Sigrún Sigurðardóttir og Ásmundur Sveinsson: Ef lýsa ætti myrkva

Sirra Sigrún Sigurðardóttir og Ásmundur Sveinsson: Ef lýsa ætti myrkva

Ásmundarsafn

-

Listasafn Reykjavíkur – Ásmundarsafn hefur verið opnað á ný með sýningu Sirru Sigrúnar Sigurðardóttur þar sem hún á í samtali við verk Ásmundar Sveinssonar og bygginguna sjálfa. Verk Sirru eru kosmísk í eðli sínu og tengjast gjarnan inn á vangaveltur um stöðu okkar inni í gangverki náttúrunnar, eðlisfræðinnar og þeirra afla sem halda heiminum gangandi. Þau framkalla oft stöðu okkar sem einstaklinga, vægi okkar og smæð þar sem hið smáa er sett í samhengi við það stærra og merking er yfirfærð frá einu fyrirbæri yfir á annað svo úr verður ný skynjun, ný sýn.

Mörg verka Ásmundar vísa til forvitni hans um gang og lögmál himintunglanna. Einkum birtist það í abstrakt verkum frá 6. og 7. áratugunum sem jafnframt tengjast áhuga þess tíma á tækifærum mannsins til könnunar í geimnum. Á meðal verka á sýningunni er hið þekkta Andlit sólar sem er óður til sólarokunnar, forsendu lífs á jörðinni.

Það og önnur verk Ásmundar eiga sé djúpan samhljóm í verki Sirru. Ólíkt því sem tíðkast í listum er miðlun vísindalegra upplýsinga og gagna gjarnan sett fram með áreiðanlegum, ótvíræðum og auðskiljanlegum hætti í trúverðugu formi eins og línuritum, hitamyndum, stærðfræðilíkönum og skífuritum, svo eitthvað sé nefnt. Þannig má miðla gögnum sem segja okkur eitthvað áþreifanlegt og ábyggilegt um heiminn okkar og stöðu mannsins í honum. Sirra hefur endurtekið notað ásýnd og inntak þessara forma í listaverkum sínum. Framsetningin setur þó upplýsingarnar sem um ræðir og ótvíræðni upplýsinga yfir höfuð í nýtt ljós svo á það næst einhver fjarlægð. Vísindalegu mælitækin eru upphafin um leið og þau eru dregin í efa. Eftir snúning í tilraunaglasi listamannsins birtist gjarnan annað sjónarhorn og víðara, með fleiri skírskotanir og meðvitund um hve ómögulegt sé að miðla nokkru svona ótvírætt. Og órökréttar skýringar listarinnar verða ekki endilega eins óáreiðanlegar og þær virðast. Staða landsins á hnettinum veldur ýktum sveiflum í sólarganginum, vetrarsólin marar lágt á himni í nokkrar klukkustundir og sumarsólin trónir hátt lungann úr sólarhringnum. Á sýningunni í Ásmundarsafni nýtir Sirra umfangsmesta skúlptúr Ásmundar, bygginguna sjálfa, og speglaða geisla sólarinnar til að búa til risavaxna teikningu í formi abstrakt sólúrs. Ásmundur gerði ýmsar tilraunir til að túlka lögmál náttúrunnar í gegnum form, línur og efni höggmynda sinna. Vísindalegar uppgötvanir urðu honum innblástur til þess að þróa nýtt myndmál. Ný verk Sirru mynda samtal við valin verk hans og hugmyndaheim, og kinka kolli til einlægs áhuga myndhöggvarans á tækni og vísindum, og næmni hans fyrir ólíkum efnum og efnistökum, sem birtist í óttaleysi hans við að breyta um stíl og aðferðir í gegnum ferilinn. Sirra Sigrún Sigurðardóttir lauk BA námi frá Listaháskóla Íslands árið 2001 og MA í Art Practice frá School of Visual Arts í New York árið 2013. Hún hefur meðal annars haldið einkasýningar í Listasafni Reykjavíkur, Nýlistasafninu, Hafnarborg og Kling & Bang og tekið þátt í samsýningum og verkefnum víða um heim, þar á meðal í Chinese European Art Center í Xiamen í Kína, Amos Andersons Konstmuseum í Helsinki í Finnlandi og í Tate Modern og Frieze Projects í London á Englandi. Sirra er einn stofnenda Kling & Bang í Reykjavík. Árið 2015 hlaut Sirra Guðmunduverðlaunin sem listamaðurinn Erró stofnaði til árið 1997. Sirra var tilnefnd til Myndlistarverðlaunanna árið 2020 og hefur hlotið styrki og viðurkenningar úr listasjóðum Dungal, Leifs Eiríkssonar, Svavars Guðnasonar og Guðmundu Andrésdóttur. Árið 2015 var Sirra á meðal 24 alþjóðlegra listamanna sem tímaritið Modern Painters útnefndi sem listamenn sem vert væri að fylgjast með á komandi árum. Ásmundur Sveinson (1893-1982) var frumkvöðull í íslenskri myndlist. Hann nam klassíska höggmyndalist og vann í hefðbundin efni framan af. Viðfangsefni hans voru tengd nærumhverfinu, vinnandi stéttir, þjóðsögur og sagnarfurinn. Á sjöunda áratugnum vék hann frá þeim fígúratífu aðferðum sem áður einkenndi listsköpun hans og fór í auknum mæli að nota óhlutbundið myndmál. Viðfangsefni hans urðu óefniskenndari og tengd náttúrufyrirbærum, lögmálum og eðlisfræði. Óhefðbundinn efniviður varð áberandi í verkum hans og stýrði gjarnan útkomu einstakra verka; um leið tók hann upp frjálsari aðferðir með því að vinna beint í efnið. Ásmundur reisti vinnustofu sína og heimili, kúluhúsið, í nokkrum áföngum á árunum 1942-59. 

Sýningin Ef lýsa ætti myrkva er hluti af sýningartvennu í Ásmundarsafni árið 2021 en sýning Carls Boutard og Ásmundar verður opnuð í haust. Með þessum sýningum opnar Ásmundarsafn eftir mestu endurbætur frá því það var opnað almenningi árið 1986. Gestir öðlast nýja sýn á arfleifð hins gamalkunna og ástsæla listamanns í gegnum linsu tveggja samtímalistamanna og í hinu fallega umhverfi sem Ásmundarsafn og garðurinn í kring móta..

Myndir af sýningu

Myndir frá opnun

Ítarefni

Umfjöllun fjölmiðla PDF

Sýningarskrá

Sýningarstjóri/-ar

Ingibjörg Sigurjónsdóttir

Listamenn

Boðskort

Boðskort