Hafnarhús
-
Sigurður Guðjónsson er þekktur fyrir magnþrungin vídeóverk þar sem mynd, hljóð og rými mynda órofa heild. Hann beinir einkum sjónum að virkni margs konar tækjabúnaðar, þar sem áhorfandinn er lokkaður inn í heim sefjandi endurtekningar, takts og reglu og mörk hins mannlega og vélræna verða óljós.
Á sýningunni Leiðni gefst færi á að kynnast ögrandi og svipmikilli vídd listsköpunar Sigurðar Guðjónssonar. Leiðni býður áhorfendum að grandskoða hreyfingar, flæði og hófstilltar umbreytingar sem eiga sér stað í efnisheiminum. Úrvalið sem hér er samankomið samanstendur af sex nýlegum verkum, sem og einu glænýju.
Öll eiga þau rætur að rekja til könnunar listamannsins á örlandslagi og vídeómyndmáli þar sem hið sýnilega, heyranlega og rýmislega mynda órofa heild. Sigurður leggur áherslu á að fanga tíðnisvið og tákn sem greina má í yfirborði eða afmörkuðum hlut, sérstaklega í tækjum og efnum tengt iðnaði. Hann leggur sig í líma við að fanga nánast ógreinanlegan takt og slátt sem kemst til skila í því hægfara ummyndunarferli sem greina má í verkunum. Sýningin Leiðni hvetur okkur til að hugsa um tilurð mynda, veitir innsýn í margræðni efnis, og minnir á ævarandi umbreytingu heimsins.
Sigurður Guðjónsson (f.1975) er einn fremsti vídeólistamaður íslenskrar samtímalistar og var fulltrúi Íslands á Feneyjartvíæringnum 2022. Í rökstuðningi fagráðs sem útnefndi Sigurð sem fulltrúa Íslendinga á Feneyjatvíæringinn segir: „með vali Sigurðar teflir Ísland fram listamanni sem unnið hefur að áhrifamiklum innsetningum á óvenjulegum sýningarsvæðum og byggt upp afar sterka röð sýninga sem vakið hafa verðskuldaða athygli í heimi samtímalistarinnar.“ Sigurður stundaði nám við Billedskolen í Kaupmannahöfn 1998-1999, Listaháskóla Íslands 2000 -2003 BA og Akademie Der Bildenden Kunste í Vínarborg 2004. Hann var valinn Myndlistarmaður ársins 2018.
Verk Sigurðar í Feneyjum Ævarandi hreyfing er nú sýnt í BERG Contemporary í Reykjavík.
Mónica Bello sýningarstýrir Leiðni í Hafnarhúsi en hún er jafnframt sýningarstjóri íslenska skálans á Feneyjartvíæringnum..
Umfjöllun fjölmiðla (skrár)
Sýningarstjóri/-ar
Mónica Bello
Umfjöllun fjölmiðla
Listamenn