Roni Horn - MY OZ

Roni Horn - MY OZ

Roni Horn - MY OZ

Hafnarhús

-

Sýningin My Oz í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi er yfirgripsmesta sýning á verkum Roni Horn sem sett hefur verið upp á Norðurlöndunum. Verkin á sýningunni eru valin í samvinnu við listamanninn og er ætlað að endurspegla náið samband hennar við Ísland en jafnframt að veita innsýn í feril hennar. Á sýningunni eru ljósmyndir, þrívíð verk, teikningar og bækur.

Roni Horn hefur heimsótt Ísland reglulega síðan á miðjum áttunda áratugnum, þegar hún kom hingað sem ungur listnemi.

Hún hefur ferðast meira um landið en flestir Íslendingar og í mörgum af sínum þekktustu verkum hefur hún sótt innblástur sinn í óspillta náttúru landsins. Skemmst er að minnast Vatnasafnsins / Library of Water sem opnað var í Stykkishólmi í liðinni viku og geymir m.a. annars vatn úr 24 jöklum landsins. Vatnasafnið ásamt sýningunni MY OZ hefur laðað til sín tugi erlendra gesta og blaðamanna frá öllum helstu listatímaritum heims sem fjalla um verk Roni Horn á Íslandi.

Roni Horn hefur heillað íslenska áhorfendur sem listakona og náttúruverndarsinni og býður þeim nú í fyrsta sinn að sjá heildstæða sýningu verka sinna og skynja þar ósvikið samband hennar við landið. Listasafn Reykjavíkur hefur gefið út glæsilega bók um Roni Horn í tilefni af sýningunni, sem listamaðurinn hannaði með Berki Arnarsyni.

Bókina prýða fjölmargar myndir af verkum Roni Horn auk fyrirlesturs sem hún hélt við Listaháskóla Íslands. Í bókina skrifar einnig Fríða Björg Ingvarsdóttir, menningarritstjóri Morgunblaðsins.

Roni Horn er fædd í Bandaríkjunum árið 1955 og býr í New York. Hún lauk myndlistarnámi frá Rhode Island School of Design árið 1975 og stundaði síðan meistaranám við Yale háskóla, þaðan sem hún útskrifaðist 1978. Roni Horn hefur hlotið alþjóðlega viðurkenningu fyrir úthugsuð verk sem einkennast af nákvæmni og sterkri nærveru og spanna allt frá skúlptúrum, til bóka eða ljósmynda innsetninga. Sýningaferill hennar hófst um 1980 og hafa verk hennar verið sýnd víða um heim, meðal annars í stórum, alþjóðlegum söfnum..

Myndir af sýningu