Roni Horn: Hún, hún, hún og hún

Roni Horn: Hún, hún, hún og hún

Roni Horn: Hún, hún, hún og hún

Kjarvalsstaðir

-

Bandaríska listakonan Roni Horn er einn þeirra Íslandsvina sem hefur um langt skeið ræktað tengsl sín við land og þjóð. Hún er án efa einn virtasti myndlistarmaður samtímans og ein fárra kvenna sem náð hefur að kveða sér hljóðs í veröld sem hún segir engan þurfa að fara í grafgötur um að er mun hliðhollari körlum en konum. (Morgunblaðið 18.10.2003).

Roni Horn fæddist í New York árið 1955 og í sinni fyrstu utanlandsferð árið 1975 kom hún til Íslands.

Hún hefur síðan komið hingað reglulega, á hér nú sitt annað heimili og fjölda vina og kunningja um allt land. Í huga Roni Horn er Ísland ákveðið mótvægi við stórborgina New York- og nú, eftir nær 30 ára samband við landið, telur hún heimsóknir hingað sér nauðsynlegar einfaldlega til að halda lífinu í jafnvægi. Þau verka hennar sem tengjast Íslandi eru fyrst og fremst ljósmyndir og textar.

Gefnar hafa verið út ýmsar bækur sem tengjast þeim viðfangsefnum. Þannig telur bókaröðin "To Place" nú átta bækur, en í þeim öllum hefur Ísland verið helsti efniviðurinn. Í nokkrum verkum Roni Horn er Sundhöllin í Reykjavík í aðalhlutverki.

Þetta merka hús sem byggt var á árunum 1922 - 1937 eftir teikningu Guðjóns Samúelssonar, er í miklu uppáhaldi hjá henni og hún hefur myndað það bak og fyrir. Í verkinu "Hún, hún, hún og hún"sem sýnt er á Kjarvalsstöðum er fjölmörgum myndum úr kvennaklefa Sundhallarinnar raðað saman líkt og í bútasaumsteppi.

Uppröðunin minnir þannig á brotakennda skynjun okkar á umhverfinu, í gegnum augað sem sífellt blikkar. Dularfullt völundarhús búningsklefanna er torskilið í þessum myndum, eins og það er jafnvel fyrir þá sem eru á staðnum.

Með þessum myndum sýnir Roni samspil dyra, hurða og veggja sem sífellt breytast, því þegar eitt rými opnast er öðru lokað. Uppsetning myndanna í heila fleti er líka mikilvæg til að gefa áhorfandanum skýrari mynd af rýminu, sem þó heldur áfram að rugla hann. Sýningin er gerð í samvinnu við Listahátíð Reykjavíkur..

Myndir af sýningu